145. löggjafarþing — 2. fundur,  8. sept. 2015.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar — og vondir.

Alþingismenn hafa sterka tilhneigingu til að réttlæta vald sitt með því lýðræðislega umboði sem þeim hefur verið veitt í kosningum. Stjórnmálahreyfingar setja saman lista og síðan eru þessir listar valdir í almennum kosningum. Það er kerfið sem við búum við. Þannig virkar þingræðið. En það að svona sé kerfið og að svona sé þingræðið og að vissulega sé það óendanlega betra en ekkert lýðræði þá hrjá veigamiklar takmarkanir einfalt þingræði sem ég tel að margt fólk og sérstaklega alþingismenn eigi erfitt með að viðurkenna. Kannski er það vegna þess að Alþingi er hjúpað rómantískum blæ um sjálfstæði þjóðarinnar frá Danakonungi þannig að við gefum okkur sjálfkrafa, hvað svo sem við erfðum á sínum tíma, að við hljótum að vera á hinni einu beinu braut. En stoltið hefur tilhneigingu til að blinda. Rómantísk nostalgían sem umlykur þingræðið gerir okkur erfitt að horfast í augu við veigamikla galla þess fyrirkomulags, fyrirkomulags sem við erum of upptekin við að heimta virðingu fyrir og aðdáun.

Gott dæmi um vont vandamál er að þótt konur hafi mestalla tíð verið um það bil helmingur þjóðarinnar þá er það nýtilkomið að konur séu algeng sjón á Alþingi og enn hafa þær aldrei náð því að vera helmingur þingmanna. Ef listakosningar leiddu af sér þverskurð af þjóðinni ætti um helmingur þingmanna að hafa verið konur frá því að þær urðu kjörgengar. Í dag ættu að vera í það minnsta þrír til sex þingmenn opinberlega samkynhneigðir og sennilega svipaður fjöldi þingmanna af erlendum uppruna. En svo er ekki. Ástæðan fyrir þessu ósamræmi er einföld. Fulltrúalýðræðið er háð félagslegum, menningarlegum og tæknilegum takmörkunum sem bitnar á möguleikum ýmissa hópa og sér í lagi einstaklinga til að hafa áhrif á samfélag sitt. Listakosningar leiða einfaldlega ekki sjálfkrafa af sér þverskurð þjóðarinnar og geta ekki falið þinginu fullt og ótakmarkað umboð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þetta sé vandamál sem okkur ber að virða.

Annað er að fulltrúalýðræðið ofureinfaldar verulega skil hagsmuna og gildismats ýmissa hópa. Í morgun hlýddi ég ásamt nokkrum öðrum þingmönnum á stórgóða hugvekju hv. doktorsnema í heimspeki, Nönnu Hlínar Halldórsdóttur, en hún sagði m.a., með leyfi forseta:

„Hví veljum við fulltrúa eftir landsvæðum en ekki einhverju allt öðru? Hefði það ekki alveg eins getað þróast þannig að ólíkir hópar veldu sér fulltrúa, að í stað þess að hafa Reykjavíkurkjördæmi suður hefðum við konur á aldrinum 25–35 eða fólk með tekjur undir 2 milljónum?“

Vont vandamál, en góð spurning.

Virðulegi forseti. Fulltrúalýðræðið er frábært miðað við ekkert lýðræði en það getur hins vegar aldrei tekið tillit til hins fjölbreytta nútímasamfélags. Það er þess vegna sem við eigum ekki að líta á valddreifingu til fólksins í landinu sjálfkrafa sem áfellisdóm yfir Alþingi. Jafnvel þótt við hefðum heiðarlega, snjalla og vel upplýsta og duglega þingmenn ættum við að búast við því að þjóðin væri ósammála Alþingi af og til af fullkomlega saklausum ástæðum og án þess að það væri nokkurs konar áfellisdómur yfir einu eða neinu. Fulltrúalýðræðið er einfaldlega ekki fullkomið. En Alþingi þráir hins vegar virðingu almennings eins og svo sé.

Með þessum athugasemdum geri ég meira að segja ráð fyrir Alþingi sem nýtur virðingar og trausts. Hvorugt er hins vegar tilfellið. Frjáls einstaklingur getur ekki borið virðingu fyrir valdhafa sem ber sjálfur ekki virðingu fyrir valdinu og jafnvel ef svo væri ætti það að vera erfitt.

Margir hér inni telja virðingu Alþingis felast í því að þingmenn standi hér og noti rétt ávarpsorð og klæðist réttum fötum. Ég stend hér í réttum fötum, nota rétt ávarpsorð og gott betur. Það gera langflestir þingmenn, reyndar næstum því allir, næstum því alltaf. En þjóðin ber engu meiri virðingu fyrir okkur þrátt fyrir það. Hvers vegna ekki? Vegna þess að virðingin felst ekki í hefðum og formlegheitum heldur því hvernig þessi valdamesta stofnun Íslands fer með það vald sem hún hefur yfir fólkinu í landinu. Heiðarleiki gagnvart eigin hlutverki og brestum er virðingarverður, ekki tilætlunarsemin sem þessi stofnun sýnir jafnan almenningi jafnan, hvaða einstaklingum það er síðan að kenna.

Í þessu samhengi tel ég við hæfi að vitna í hæstv. siðfræðing og minn uppáhalds, Jesú Jósefsson frá Nasaret, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Vel mælt, virðulegi forseti. Ef vér viljum virðingu almennings skulum vér og honum virðingu sýna.