145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalegt og gott andsvar og skýrar spurningar. Ég ætla að svara þeim eins vel og ég get en ef ekki þá lætur hv. þingmaður mig vita og ég reyni að fylgja því betur eftir.

Varðandi þörfina þá hef ég áhyggjur af því atriði eins og ég nefndi. Við erum náttúrlega ekki búin að sjá útfærslu á þessum hlutum. Ég sat í hópi hæstv. félagsmálaráðherra um húsnæðismál þar sem við skiluðum ákveðnum tillögum og fórum í þetta. Ég hef að vísu ákveðna fyrirvara þar á, en stóra málið er að hægt sé fyrir ungt fólk að kaupa sér nýjar íbúðir. Það þarf að breyta byggingarreglugerðum þannig að það sé ódýrara að byggja nýjar íbúðir, litlar íbúðir sem byrjað er í. Það er verkefnið. Sömuleiðis hefur lóðaverð, lóðaleiga og annað hjá sveitarfélögunum hækkað gríðarlega mikið og það bætist ofan á byggingarkostnaðinn og þar af leiðandi á markaðsvirðið. Þetta finnst mér vera stórt mál og grundvallaratriði.

Varðandi landsbyggðina held ég að við munum aldrei komast hjá umræddum vanda. Þetta er búið að vera viðvarandi. Ég er alinn upp úti á landi og þekki þetta ágætlega. Þegar maður byggir, sérstaklega á köldum svæðum, og ég vona að fólk geri það þá mun markaðsvirðið alltaf vera lægra en byggingarkostnaðurinn. Við þurfum hins vegar að tryggja það, og ég tel að það sé eitthvað sem við eigum að hafa sátt um, að fólk fái lánafyrirgreiðslu í slíkt jafnvel þó að menn viti að markaðsverðið dugi ekki ef illa fer hjá viðkomandi aðila og lánastofnun þarf að taka eignina til sín. Ég hef ákveðna hugmynd í því sambandi en næ ekki á tíu sekúndum að fara yfir það en get gert það á eftir.

Síðan eru líka þættir sem skipta máli varðandi búsetu. Ég horfi hér á hv. þm. Harald Benediktsson sem hefur verið forgöngumaður í að ljósleiðaravæða allt landið, sem þýðir að fólk geti stundað vinnu og nám (Forseti hringir.) sama hvar það býr á landinu. Það tengist þessu máli beint.