145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar á leið vestur á firði til að taka í notkun mikið framfaramál, Vestfjarðaveg nr. 60, þar sem við erum smátt og smátt að þoka okkur áfram með það að koma með nútímavegi í það byggðarlag. Ég get svo sannarlega tekið undir það með hv. þingmanni og þekki það bara á eigin skinni hversu mikilvægt það er fyrir hinar dreifðu byggðir að samgöngumál og fjarskiptamál séu í öruggri höfn. Það er að mínu viti heilmikið frelsismál fyrir hvern einstakling í landi að hann hafi frjálst val um búsetu og geti fundið kröftum sínum viðnám. Þess vegna er núna þessi stefnumörkun í gangi vegna fjarskiptamála. Ég held að allir geti verið sammála um að það er mikið þjóðþrifamál að koma því í kring.

Það er rétt að alls staðar sem maður kemur stendur það upp úr öllum mönnum að viðhald vega sé mikilvægt. Það er mikil áhersla á viðhald vega í samgöngumálum um þessar mundir. Ég held að sú áhersla hafi hreinlega aukist á undanförnum árum. Það mun líka birtast í tillögu til samgönguáætlunar að auka viðhaldið, bæði í kringum höfuðborgarsvæðið og líka í dreifðari byggðum. Það þarf líka að skoða tengivegina sérstaklega.

Þeir fjármunir sem settir eru í viðhald, ég þreytist ekki á að nefna þetta, nýtast vel og þegar verið er að tala um að meira þurfi að gera í samgöngumálum er svo ágætt að líta til þess að — vissulega þarf að fara í nýframkvæmdir og við erum að fara í stór nýframkvæmdaverkefni, t.d. Arnarnesveginn á höfuðborgarsvæðinu, við erum búin að klára Álftanesveginn, við erum með þessi stórkostlegu jarðgangaverkefni í gangi. Ekki gleyma hvað þau taka mikið fé til sín. Af rúmum 20 milljörðum eru 3,5 í jarðgöngum. Það er breyting sem hefur orðið á undanförnum árum á Íslandi, við erum nánast alltaf í einhverri jarðgangaframkvæmd. Það er algjörlega ljóst (Forseti hringir.) að þeir aurar sem í viðhald fara nýtast óskaplega vel og þeir peningar eru fljótir að koma til baka.