145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu hér, en ég verð að taka undir með þeim hv. þingmanni sem áðan spurði hæstv. ráðherra um þessi mál, varðandi það að ekki lægi fyrir í ráðuneytinu greining á þessum hlutum. Það hlýtur auðvitað að vekja athygli að svo sé í ljósi þess mikla ákalls og umræðu sem er í samfélaginu, eins og hér var rakið. Ráðherra hlýtur í framhaldinu, eftir þessa umræðu í dag, að óska eftir því að það verði gert.

Mig langar í lokin á þessari umræðu að koma inn á það að ráðherra hefur talað mikið um að koma fram með margs konar húsnæðisfrumvörp og talar um þörfina. Hún er vissulega mest hér á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ég hlýt að spyrja hvaða úrræði frumvörpin fela í sér gagnvart landsbyggðinni. Er einhver tiltekinn stuðningur við íbúa og/eða sveitarfélög, t.d. við byggingu íbúða á landsbyggðinni?

Ef maður byggir sér hús, segjum bara heima hjá mér, þá er það svo að um það bil sem ég flyt inn í það er verðfallið kannski 20–30% vegna þess að fasteignamatið er svo lágt. Það er svo langt frá raunverulegum byggingarkostnaði að þar er ekki byggt. Sveitarfélögin byggja ekki, einstaklingarnir byggja ekki og ekki heldur þeir sem þó eru kannski í þessum bransa, smiðir og aðrir, vegna þess að það er svo kostnaðarsamt og yrði svo dýrt að leigja húsnæðið eða reka að fólk treystir sér ekki til þess. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig, þegar markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi, hvort þessi frumvörp taki að einhverju leyti á því.

Mig langar því að spyrja hvort hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafi einhver áform uppi um stuðning við íbúðabyggingar á landsbyggðinni þar sem markaðsforsendur eru ótryggar.