145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil óska öllum þingmönnum sem og landsmönnum til hamingju með daginn í dag. Ég er mjög ánægð með að til skuli vera dagur lýðræðis þar sem við beinum sjónum að því hversu mikilvægt það er að hlúa að lýðræðinu. Mig langar að stikla á stóru í fréttatilkynningu sem kom frá Alþjóðaþingmannasambandinu en yfirskrift hennar er: Styrkur lýðræðis grundvallast á stjórnmálaþátttöku almennings.

Alþjóðaþingmannasambandið fagnar degi lýðræðis með því að senda út ákall í dag um stóraukið átak í því að hafa almenning meira með í ráðum í formlegum pólitískum ferlum og aðgengi að þjóðþingum. Það hvetur jafnframt þjóðþing til að vera opnari og aðgengilegri borgurum sínum og að þau starfi sem málsvari allra sem í samfélaginu búa.

Hugmyndafræði lýðræðis er byggð á rétti einstaklinga til að taka þátt í og eiga fulltrúa í stjórnun opinberra mála og þeim ákvörðunum sem hafa áhrif á þeirra daglega líf. Þrátt fyrir að 190 þjóðþing séu í heiminum með meiri hluta þingmanna kosna beint þá vantar mun meiri þróun til að raunveruleg framkvæmd lýðræðis eigi sér stað.

Mér finnst það svolítið merkilegt að þetta komi frá Alþjóðaþingmannasambandinu því að þar má segja að aðgengi sé að þingmönnum frá öllum heimshornum, líka þar sem ekki er beint hægt að tala um lýðræði, eins og Kína eða Íran.

Mig langar til að skora á okkur hér á þinginu til að sýna gott fordæmi og hafa til dæmis nefndarfundi opna og í heyranda hljóði.


Efnisorð er vísa í ræðuna