145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram bæði hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að skattar væru bara ekkert háir á Íslandi, þeir væru bara svona nokkurn veginn í flútti við önnur lönd.

Samanburðurinn er erfiður, það er rétt. En þegar við berum þetta saman þá gleymist eitt mjög stórt atriði. Við þurfum að borga 12% í lífeyrissjóð til framfærslu til efri áranna. Það fer í gegnum skattkerfið í hinum löndunum og ef við bætum 12% við þá erum við víst með háa skatta. Við erum með háa skatta. Við borgum hátt hlutfall af launum okkar til opinberra aðila og til lífeyrissjóða sem við eigum síðan að fá að hluta til til baka. Þetta er bara staðreynd.

Við þurfum líka að athuga það þegar við skoðum lönd eins og Bandaríkin þá er skatthlutfallið þar lægra, 25%, en Bandaríkjamenn borga auðvitað af launum sínum í tryggingar sem geta verið mismunandi eftir því hvað maður tryggir sig mikið gegn sjúkdómum og veikindum þannig að það er erfitt að bera þetta saman. En ég verð þó að segja að ég er ekki talsmaður þess að skattkerfið sé notað almennt sem tekjujöfnunarkerfi. Ég vil auðvitað að launþeginn geti lifað af sínum tekjum og það þurfi ekki að dæla peningum úr ríkissjóði til þess, við þurfum auðvitað að tryggja ákveðið öryggi þannig að menn geti verið þátttakendur í samfélaginu,(Forseti hringir.) en mikilvægast er að þetta komi í gegnum launin og skattbyrðin sé ekki svo há að einstaklingurinn nái ekki endum saman út af því.