145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:20]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu um þetta mikilvæga mál. Mig langar til þess að byrja á því að vitna í hvítbók menntamálaráðherra þar sem hann vitnar í Guðmund Finnbogason, þann merka mann, en hann segir, með leyfi forseta:

„Menntun hvers manns verður að metast eftir því hve hæfur hann er til að lifa og starfa í mannlegu félagi, lifa og starfa þannig að líf hans verði með hverjum degi meira virði fyrir sjálfan hann og aðra.“

Þetta finnst mér algert lykilhugtak í menntun og til þess að geta menntað sig og tekið þátt í lífinu verður maður að kunna að lesa. Það er alger undirstöðugrein í skóla að kunna að lesa. Ég var eins og fleiri sleginn yfir þeim niðurstöðum sem birtust um að 30% ungra drengja gætu ekki lesið sér til gagns þegar þeir kláruðu skóla. Þetta er alveg ævintýralega há tala og engan veginn ásættanleg.

Hvað varðar þjóðarátakið í læsi þá fagna ég því þó að auðvitað megi alltaf deila um hitt og þetta, hvernig við ráðstöfum peningum og annað, en lykilatriði er að mynda samstöðu um þetta og að við vinnum saman að því öll sem eitt að bæta þetta. Mér finnst markmiðið sem birt er í hvítbókinni, að 90% grunnskólabarna nái að lesa, mjög göfugt og ég mun taka þátt í því af fullum krafti með hæstv. menntamálaráðherra.

Ég vil líka undirstrika gríðarlegt mikilvægi leikskólans í þessu. Ég var viðstaddur undirskrift á einum svona samningi um að strax frá byrjun skyldi gripið inn í og börn aðstoðuð við að læra vegna þess að það er fylgni milli orðaforða og læsis í skólum og einkunna í skóla.

Mig langar að enda þetta eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði með því að fara með smá vísubrot sem heitir Bók í hönd eftir Þórarin Eldjárn:

Bók í hönd

og þér halda engin bönd.

Bók í hönd

og þú berst niður á strönd.

Bók í hönd

og þú breytist í önd.

Bók í hönd

og beint út í lönd.