145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef til að ræða þetta langar mig til að færa rök fyrir því að við eigum að taka við fleira fólki inn í landið. Mér þykir sjálfsagt að endurskoða notkun okkar á Dyflinnarreglugerðinni og tel það reyndar staðreynd meðal allra þeirra sem skoða þessi mál yfir höfuð.

Við þurfum fleira fólk á Íslandi. Eitt af stóru vandamálunum á Íslandi er það að við erum fá og okkur fer fækkandi ef teknir eru með íslenskir ríkisborgarar. Við getum fagnað því að fólk er að flytja til þessa lands vegna þess að annars væri að eiga sér stað fólksfækkun. Við þurfum fleira fólk. Það er í okkar hag að taka við fleira fólki með einu skilyrði, að við tökum vel á móti því. Alveg eins og fólksfjölgun almennt er góð ef fólk hefur tækifæri í lífinu. Við mundum aldrei hvetja til færri barneigna til að standa undir velferðarkerfinu, okkur mundi aldrei detta í hug að skera niður í skólastarfi vegna þess að hér sé fólk sem eigi svo bágt. Það væri fráleitt og það er fráleitt. Við eigum að reyna að taka á móti þessu fólki þannig að það vilji vera hérna, helst. Það ætti að vera okkar mælikvarði.

Auðvitað vill fólk vera heima hjá sér. Það er nú annað sem hefur verið bent á og er alveg rétt en það fólk sem nú flýr stríð mun ekki komast heim í bráð og við verðum að gera ráð fyrir því að þetta fólk verði hér einhvern tíma. Við eigum að hvetja það til að vera hér í einhvern tíma ef við mögulega getum. Við krefjumst aðlögunar af öðru fólki en gleymum því að aðlögun gengur í báðar áttir. Ég þekki það af því að ég er að læra framandi tungumál, nánar tiltekið finnsku, í hinu ágæta landi Finnlandi að maður lærir ekki tungumál sem er framandi nema maður taki þátt í samfélaginu þá þarf maður að vera velkominn í það samfélag áður en maður lærir tungumálið.

Þetta gengur í báðar áttir. Við eigum að taka vel á móti þessu fólki. Við eigum að búa þannig um það að við verðum að gera ráð fyrir því að það verði hér eins lengi og mögulegt er, ekki bara fyrir hagsmuni þess heldur líka okkar eigin. Þetta fólk vill vera heima, það þarf hjálp og við eigum að sýna því kærleika, skilning og stuðning ef það sjálft vill kenna sig við Ísland.