145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Að sjálfsögðu er það gott og ég er sammála því að það eigi að vera í höndum heimamanna að vinna vinnuna á vettvangi. Ég tel mig samt ekki hafa fengið fullnægjandi svör við því hvort engin hætta sé á því að ríkið, sem veitir aðstöðuna, fari í ríkari mæli að hafa áhrif á það hvað er styrkt og hvað er gert einmitt vegna þess að við sem rík þjóð eigum peningana.

Ég vitnaði áðan í umsögn ASÍ. Mig langar líka að vitna í umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Þar segir að allar rannsóknir sýni að þróunarsamvinna bæti lífskjör, heilsu og menntun. Það er auðvitað það sem við viljum gera. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sýna einnig að gæði og afköst þróunarsamvinnu minnka þegar framlagsríki láta eigin hagsmuni, t.d. viðskiptahagsmuni eða stjórnmál, ráða för við úthlutun framlaga til þróunarmála.“

Vonandi leggur enginn upp með það sem markmið að láta þetta ráða för við þróunarsamvinnu. En er ráðherrann mér ósammála um það að hér þurfi að stíga varlega til jarðar, því að með þessum breytingum er miklu styttra yfir í það að þetta sé mögulegt og þar með að tiltrú almennings á þróunarsamvinnu geti hreinlega minnkað?