145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mér finnst það mál sem við ræðum hér um landsáætlun og uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum dæmi um mál sem hefur gott af því að fá umræðu og sem hefur gott af því að fara til nefndar og klárast ekki og koma hingað aftur og ræðast hér aftur í 1. umr. Ég var upphaflega frekar jákvæð gagnvart þessu máli. Ég held að það sé tilhneiging okkar allra sem komum að stjórnmálum að vilja ná utan um verkefnið alveg, koma að málinu og ná utan um verkefnið. En ég held að við þurfum að hætta að hugsa þannig að við þurfum að ná utan um verkefnið alveg vegna þess að í þeirri nálgun er líka pínulítil tilhneiging til þess að reisa sjálfum sér minnisvarða til þess að vera sá eða sú sem kom að málinu og náði loksins utan um það.

Til er alls konar regluverk eins og hér hefur komið fram í ágætri ræðu hv. þm. Róberts Marshalls og líka í andsvörum okkar við hæstv. ráðherra. Það eru til alls konar áætlanir og það eru til alls konar verkfæri sem sveitarfélög, ferðaþjónustuaðilar og aðrir bæði þurfa að lúta og geta nýtt í þágu uppbyggingar. Ég er eiginlega komin á þá skoðun að þetta mál sé til óþurftar og það sem við þurfum sé fyrst og fremst fjármagn og stuðningur við núverandi regluverk.

Þá er ég að tala um nokkur atriði. Byrjum á því að gera vel það sem við erum með, gera vel það sem fyrir er. Byrjum á því að næra af krafti sóknaráætlanir landshluta, byrjum á því. Það frábæra verklag var ekki skrifað inn í nein lög, það var enginn ráðherra sem kom um lög um það hver ætti að tala við hvern og hver ætti að funda með hverjum. Það var bara farið í það, sveitarstjórnarmenn, atvinnulífið, skólarnir, almenningur í hverjum einasta landshluta hittust og bjuggu til sína forgangsröðun, líka forgangsröðun vegna uppbyggingar á svæðum. Til að mynda það að byggja upp gestastofu á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Það var forgangsverkefni í niðurstöðu vinnu sóknaráætlunar landshluta fyrir Suðurland. Það var niðurstaða þeirra. Það þurfti engin lög um innviðauppbyggingu eða forgangsröð verkefna til þess að það lægi fyrir. Það verkefni hefur því miður verið algjörlega vannært í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þar liggur fyrir hvað það er sem heimamenn vilja og þar liggur fyrir hvað þarf að gera til þess að byggja upp í þágu menningar og ferðaþjónustu á því svæði.

Setjum peninga í samgönguáætlun. Eins og hér hefur verið nefnt og kemur fram til að mynda í umsögnum með málinu frá því í fyrravetur þá koma fram þær athugasemdir að það sé ekki nóg að tala um svæðin sem afmörkuð verkefni, þ.e. ferðamannastaður, ferðamannasvæði, ferðamannaleið og innviðir á viðkomandi svæðum o.s.frv., vegna þess að veruleikinn er sá að fólkið þarf að komast til og frá og það þarf að nýta samgöngukerfið til þess að ferðast um landið. Samgöngukerfið er vannært. Við gerum ekki nægilega vel að því er varðar lágmarksviðhald og uppbyggingu samgöngukerfisins. Þar ætlar ríkisstjórnin nánast að skila auðu því ef marka má orð innanríkisráðherra um samgönguáætlun þá mun hún verða enn þá rýrari í roðinu á þessu þingi en hún var í fyrravetur og þótti þó mörgum nóg um.

Tökum til við úthlutunarreglur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og leggjum af regluna um mótframlag. Segjum sem svo að ef áætlunin liggur skýr og klár fyrir þá gerum við ekki kröfu um mótframlag. Það er það sem lítil sveitarfélög lenda í vandræðum með. Það er ekki það að verkefnið sé ekki klárt. Það er ekki það að þörfin sé ekki fyrir hendi. Það er að stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hefur sjálf sett sér þær reglur að hún krefjist mótframlags. Tökum þetta úr sambandi og nýtum peningana sem við erum búin að samþykkja á Alþingi að leggja í uppbyggingu ferðamannastaða. Eigum við ekki að gera það bara? Þurfum við lög um uppbyggingu innviða til að gera það? Nei, við þurfum það ekki.

Við þurfum ekki lög um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum til þess að fylgja eftir niðurstöðum rammaáætlunar um friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar 2. Við þurfum enga nýja löggjöf um það. Við þurfum heldur ekki nýja löggjöf til þess að styrkja Umhverfisstofnun í því að halda áfram friðlýsingum á grundvelli náttúruverndaráætlunar og gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir 100 náttúruverndarsvæði og friðlýst svæði. Við þurfum peninga til þess. Þetta allt er bara á grundvelli núgildandi löggjafar.

Til hvers er þetta hér þegar við erum í raun og veru að svelta alla þá löggjöf og allt það regluverk sem við höfum til þess að byggja upp innviði í þágu ferðaþjónustu og náttúruverndar á Íslandi? Löggjöfin er til. Það vantar bara viljann. Viljinn sést nefnilega í peningunum. Þess vegna er hættan sú að hæstv. ráðherra geti komið þessu máli í gegnum þingið en það fáist bara engir peningar í það heldur. Það er engin trygging fyrir því að nokkrir peningar fylgi þessu máli frekar en öðrum þeim málum sem hér hafa verið talin upp. Því miður.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Við munum taka málið til skoðunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og taka við umsögnum þar og ræða við ráðuneytið og aðra þá sem hafa um málið að segja. En ég vildi á þessum tímapunkti viðra hér úr ræðustól vaxandi efasemdir mínar um það að ný löggjöf um landsáætlun um uppbyggingu innviða sé það sem við þurfum á þessum tímapunkti.