145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:55]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætum þingmönnum fyrir ræður þeirra. Ég hafði væntingar til þess að þær yrðu ívið jákvæðari í garð þessa ágæta frumvarps. Ef ég fer aðeins í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls þá telur hann að þarna sé komin of mikil miðstýring, og báðir hv. þingmenn, líka hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sem kom inn á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í því hverju við erum að reyna að ná fram hér sem hefur með það að gera að síðastliðið vor var til dæmis veittur milljarður aukalega í uppbyggingu ferðamannastaða, má segja á síðustu stundu. Við tókum saman í hraði, fengum frá undirstofnunum okkar, eins og okkar ágætu Umhverfisstofnun, og auðvitað tókum við svæði sem voru á rauðum lista þar eða út í appelsínugult hvað varðar að þangað þurfti að setja fé. Þá var ekki búið að kortleggja, þau svæði voru ekki undirbúin að öllu leyti með það hvað þurfti að gera, hvar væri komið það langt að hægt væri að setja pensil ofan í dollu og skóflu ofan í jörð. Á sumum stöðum var það hægt og ég nefni það enn og aftur að maður sá að þótt þeir hefðu ekki fengið mikið eins og við Teigarhorn, úr því framlagi sem þá var deilt úr, voru þeir með þetta á hreinu því að undirbúningsvinnunni var lokið.

Löngun stendur til þess að um hvert svæði sé slík vinna til og að fjármagnið, við skulum segja milljarður á ári, nýtist strax, að það sé vitað og hægt sé að gera áætlanir snemma árs eða þess vegna á haustin fyrir vorframkvæmdir og búið að semja við. Ég held varðandi mótframlagið sem sveitarfélög, einkaaðilar og sjálfseignarstofnanir þurftu að leggja fram að stórlega hafi verið dregið úr því núna hvað þurfi að gera. En ég held að þetta sé aðalskýringin, t.d. voru birtar myndir í sjónvarpinu af öngþveiti við Seljalandsfoss sem ég hef fengið spurnir af en þar var deiliskipulag sveitarfélagsins ekki alveg fullbúið þannig að þau gátu ekki hafist handa við að stækka bílastæðið. Það eru því ýmislegar skýringar til.

Mér fannst áhugaverðar hugmyndir koma fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, hugmyndir sem alveg sjálfsagt er að fara yfir og skoða. Í mínum huga er ég ekkert að berja mér á brjóst varðandi þetta frumvarp en mér finnst afskaplega nauðsynlegt samt að eitthvert slíkt verkfæri sé til, einhver samræming, þannig er það alla vega í mínum huga. En ég skoða svona hugmyndir og ég segi það hér í þessum ræðustól að mér fannst báðir þessir ágætu þingmenn koma með hugmyndir, þó að þeir hefðu mátt vera jákvæðari var þetta til umræðu. Þau fá málið til meðferðar í þeirri ágætu nefnd sem þau sitja bæði í, held ég, umhverfis- og samgöngunefnd. Þar get menn skipst á skoðunum.

Ég vil koma inn á að það er alveg rétt að við þurfum fjármagn, það hefur komið fram. Við erum einhvern veginn viss um það að ef fæst í þennan málaflokk, eins og kom fram á síðasta vori, um milljarður á ári þá nýtist sá milljarður miklu betur ef þetta verkfæri er smíðað og það vinnur vel. Það er mín skoðun. Varðandi Kirkjubæjarklaustur voru settar inn á síðustu dögum um 15 milljónir til þess að hægt væri að undirbúa það aðeins betur. Það er verið að gera það. Það er ekki rétt að ekkert sé verið að gera. Við fengum skipulagsfræðing til þess að vinna með sveitarstjórninni og öllum þeim aðilum um hvernig væri hægt að standa að því og ég held að það hafi verið fundur síðast í gærmorgun, ef ég veit rétt, svo að ég upplýsi ágætan þingmann. Ég veit allt um Kirkjubæjarklaustur, þetta er náttúrlega sveitarfélag sem er nokkuð brothætt og þarf sannarlega að fá einhverja innspýtingu. Ferðamennskan er þar allt um kring og ég held að við eigum, og ég veit að við munum gera það, að sameinast um að koma þar á fót gestastofu. Þetta er þó ekki svo einfalt að það sé bara hægt að byggja gestastofu því að það er náttúrulega verið að tala um það í ákveðnu þekkingarsetri, að byggt verði upp þekkingarsetur sem hýsi þá ríkisstofnanir, sveitarfélagið og eitt og annað og auðvitað fyrst og fremst gestastofu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.

Það er að mörgu að hyggja og þetta eru ágæt dæmi sem hafa verið nefnd, sem við teljum að munu falla hér inn í. Varðandi samgöngumálin get ég ekki verið meira sammála, ég held að það sé málaflokkur sem maður þurfi að setja meiri kraft í og þá ekki síst út af þessari vaxandi atvinnugrein sem hefur komið með fjármagn inn í landið og skapað störf en kallar auðvitað á ýmsa aðra vinnu sem er tiltölulega ný í hugsanagangi okkar. Aðalatriði er þó, sem mér finnst bæði þessi mál vera með að leiðarljósi, að við þurfum að passa það sem helst dregur ferðamenn til landsins, sem er náttúran. Ég held að við getum öll verið sammála um það að við gerum aldrei of vel í þeim málum.