145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:19]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra hverju það sæti að ekki er gengið til samninga við Landssamband lögreglumanna hið fyrsta.

Á sumri sem leið birtust úrskurðir um kjör þeirra stétta sem handhafar ríkisvaldsins kusu að semja ekki við. Áleit ég ekkert að vanbúnaði að ganga til samninga við lögreglumenn á þeim grunni sem þar var lagður auk þeirra sérmála sem lögreglumenn varða eina. Lögreglumenn njóta ekki verkfallsréttar og ætti að virða það sérstaklega við þá að þeir skipa sér þannig á friðarstól með sínu samfélagi. Ég tel það undirstrika skýran vilja til að vera ávallt reiðubúnir til hverra þeirra verkefna sem skyldan kallar.

Dragist enn úr hömlu að ganga til samninga við lögreglumenn upplifa þeir skilaboð um að störf þeirra séu ekki metin að verðleikum, að framlag þeirra til öryggis og velferðar borgaranna skipti ekki máli.

Niðurskurður áranna eftir hrun hefur leitt til undirmönnunar og aukins álags sem ekki hefur náðst að vinna til baka. Samfélagsþróunin með sínum skipulögðu glæpum, alþjóðavæðingu og fíkniefnaveröld hefur breytt eðli starfs þeirra, gert það hættulegra og erfiðara. Framganga stjórnvalda í samningamálum mun gera það enn erfiðara að byggja upp árangursríka löggæslu með ánægðum lögreglumönnum sem geta verið fullvissir um að störf þeirra séu metin að verðleikum. En takist að skapa slíkar aðstæður myndast metnaður og starfsánægja sem leiðir til góðrar þjónustu fyrir borgara og framþróun í störfum lögreglu.

Ég vil því spyrja ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessari stöðu mála og hvort hún muni ekki beita sér fyrir að við lögreglumenn verði samið.