145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

samþjöppun í mjólkurframleiðslu.

[13:45]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda umræðunnar fyrir innlegg hennar og þær spurningar sem hún leggur hér fram, sem mér finnst full ástæða til að við ræðum og veltum fyrir okkur í þessum sal. Mér finnst það mikilvægt, því að þó að bjór geti verið mikilvægur fyrir suma er mjólkin og landbúnaðurinn stóra málið í mörgum byggðarlögum á Íslandi. Það er nú bara veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.

Að mörgu leyti get ég tekið undir það sem hæstv. landbúnaðarráðherra sagði í ræðu sinni um þak á stuðning. Ég held að sé alveg tímabært að við ræðum að það sé gert. Mér finnst eðlilegt og tek undir með honum að ekki séu settar skorður við því að bú geti stækkað og framleiðslan haldi mögulega áfram að þjappast saman. En mér finnst engin ástæða til að stuðningur við þá framleiðslu haldi endalaust áfram að aukast og tek heils hugar undir hugmyndir um að byggðafesta í meira mæli og beita því kerfi meira til þess að stuðla að endurnýjun og uppbyggingu í sveitum.

Bústærð ræðst af mörgum þáttum. Búskapur ræðst af mjög mörgum þáttum, m.a. af fjölskyldulífi. Það er kannski vegna breytinga í fjölskyldulífi sem menn hafa ákveðið að stækka bú sín, gera þau tæknilega fullkomnari. Og til þess að byggja upp tæknilega fullkomnari bú er nauðsynlegt að framleiða meira, því að ekkert annað en aukin framleiðsla gefur peninga til þess að borga fyrir tæknina.

Mitt sjónarhorn er að þegar fólk ákveður að gerast bændur horfir það ekki fyrst á stuðningskerfið eða kvótakerfið, það horfir fyrst og fremst til þess hvaða fjölskyldulíf það getur átt með því að velja sér búsetu á jörðinni og hvernig samfélagið og skólarnir eru í því umhverfi.