145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og annarra þingmanna Samfylkingarinnar. Tillagan varðar bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Enn eina ferðina leggjum við fram tillögu um þetta mál. Þetta er þriðji vetur kjörtímabilsins og enn hefur ekkert gerst í húsnæðismálum.

Í Kvennablaðinu í dag má lesa grein eftir Guðmund Guðmundsson sem segir um húsnæðisstefnu stjórnvalda að keisarinn sé ekki í neinum fötum. Þar er bent á að í raun hafi alls ekki verið stigin nein alvöruskref frá hruni til að breyta samsetningu húsnæðismarkaðarins frá yfirgnæfandi hlutfalli séreignar yfir í aukið hlutfall í leiguhúsnæði. Fjöldi leigjenda hefur vissulega vaxið á Íslandi. Við eigum reyndar enn þá alls ekki fullnægjandi tölfræði um húsnæðismarkaðinn en hátt í 30% heimila á landinu eru á leigumarkaði, þ.e. á markaði sem eru ekki nógu skýrar reglur um því að markaðurinn er einstaklingsmarkaður. Það er mjög mikið um, eins og segir í grein Guðmundar Guðmundssonar, að Pétur leigi Páli í einhverja mánuði. Þeir sem eru á leigumarkaði á Íslandi búa því ekki við raunverulegt húsnæðisöryggi.

Við í Samfylkingunni lögðum mikla vinnu í mótun húsnæðisstefnu á síðasta kjörtímabili í samráði við aðra stjórnmálaflokka og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem er miklu framsýnna á sviði húsnæðismála en ríkisvaldið. Sveitarfélög eins og höfuðborgin Reykjavík hafa tekið upp og unnið skipulagsvinnu og uppbyggingarvinnu í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sú stefna felur í sér fjölgun leiguíbúða á almennum markaði, sem eru íbúðir innan alvöruleigufélaga sem vinna í þágu almennings. Þetta hlýtur að vera markmiðið en það er flókið að koma slíkri kerfisbreytingu á. Það krefst fjármuna frá ríkisvaldinu og af opinberu fé frá sveitarfélögunum líka.

Ég verð því að tala um það hér, hæstv. forseti, að það er þyngra en tárum taki að eftir rúmlega tveggja ára viðbótarvinnu núverandi ríkisstjórnar, þar sem er búið að þvæla húsnæðisstefnunni fram og til baka en koma fram með nánast sömu niðurstöðu, sé það sem eigi að leggja inn í leiguhluta markaðarins á þessu ári 1,5 milljarðar sem eru í raun og veru ekki viðbótarfé því að þetta kemur í stað þeirra fjármuna sem lagðir hafa verið fram til að niðurgreiða vexti í félagslegu húsnæði. Núverandi ríkisstjórn er að segja: Það á að breyta fjármögnun á félagslega kerfinu en það á ekki að byggja upp raunverulegan valkost fyrir heimili á Íslandi um það hvort þau kaupi eða leigi.

Í okkar tillögum, sem eru níu talsins, lúta fimm þeirra sérstaklega að leigumarkaðnum. Ég ætla að fara um þær nokkrum orðum. Annars vegar er það að innleiða húsnæðisbætur þannig að það verði sambærilegur stuðningur við þá sem eiga og þá sem leigja.

Hæstv. húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir lagði í vor fram frumvarp um húsnæðisbætur, sem hefði ekki þurft að breyta um nafn því að það er bara húsaleigubótakerfið með örlitlum breytingum. Það er góðra gjalda vert nema þar eru innbyrðis stuðlar langt undir því sem lagt var upp með í upphafi. Þetta er tæknilegt mál en með því að lækka stuðlana fyrir útreikninga bóta, þessir stuðlar fylgja því hversu margir eru í heimili og slíkt, sparar ráðherra og leggur því minna inn í kerfið en raunverulega var lagt upp með. Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um það mál var á þá leið að í raun næði frumvarpið ekki markmiðum sínum sem væru að styðja sérstaklega við þá tekjulægri á húsnæðismarkaði, þá erum við að tala um fólk með meðaltekjur og þar undir. Ég er hrædd um að fjárlagaskrifstofan hafi rétt fyrir sér út af því að stuðlunum var breytt.

Það sem væri auðvitað fyrsta skref — það þarf ekki að fara með heilt frumvarp í gegnum þingið — er að hækka einfaldlega húsaleigubæturnar. Það er hægt að gera það sem millileik til að koma til móts við heimili á leigumarkaði. Þær hafa ekki hækkað síðan á síðasta kjörtímabili og það er óviðunandi staða. Þær áttu að hækka á þessu ári um 400 millj. kr. alls sem mótvægisaðgerð við innleiðingu á hækkun matarskatts, en það var svikið. Þær hækkuðu aldrei. Sú mótvægisaðgerð kom aldrei til framkvæmda. Það var plat. Það er auðvitað það sem þarf að gera síðan. Til að ná niður leiguverði þarf síðan að auka framboð á leiguhúsnæði. Við viljum að ónýttar lóðir ríkisins verði boðnar fram í sveitarfélögum til byggingar á minni leiguíbúðum.

Í 7. tillögunni viljum við auðvelda sveitarfélögum kaup á félagslegu húsnæði með því að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaganna þannig að félagslegar íbúðir falli ekki undir það skuldaþak, enda má segja að það sé forsvaranlegt því að íbúðir í eigu sveitarfélaga eru auðseljanlegar og ættu því að vera tiltölulega laust fé og því er forsvaranlegt að taka kaup og öflun húsnæðis undan þeirri reglu. Síðan viljum við að sveitarfélögin sem eru að byggja upp félagslegt húsnæði geti fengið niðurgreiðslu á vaxtafé óháð því hvaðan lánið er tekið og við viljum að það verði komið á alvörustofnstyrkjakerfi til að byggja upp leigufélög í langtímarekstri, leigufélög á almennum markaði fyrir þá sem vilja það og það verði ekki félagslegt kerfi eins og lagt er upp með í stofnstyrkjahugmyndum hæstv. húsnæðismálaráðherra heldur verði það bara almennt kerfi.

Það er auðvitað grundvöllurinn að því að hér verði alvöruleigumarkaður að stór og stöndug félög séu rekin án hagnaðarsjónarmiða en með það að markmiði að reka og leigja út húsnæði fyrir almenna borgara í landinu. Það er vitað mál að fyrir nútímasamfélag er leigumarkaður skynsamleg leið. Það þarf sveigjanleika í samfélaginu svo að fólk geti verið í leiguhúsnæði. Ungt fólk, sem hefur lokið námi og er kannski á leiðinni eitthvert annað í frekara nám en vill vera heima og vinna í tvö til þrjú ár, getur þá verið á leigumarkaði þann tíma. Eins er að koma til landsins erlent vinnuafl sem þarf að geta búið við húsnæðisöryggi, hvort sem fólk er hér eitt ár eða fimm eða komi hingað til að vera. Svo á það bara að vera eðlilegur valkostur fyrir fólk að þurfa ekki að setja allt sitt fé í steinsteypu.

Það virðist vera erfitt fyrir stjórnvöld að stíga inn í 21. öldina og horfast í augu við það að séreignarstefnan er liðin undir lok sem eini valkosturinn fyrir heimili á Íslandi. Þessar tillögur miða að því að færa okkur af þeirri braut og búa hér til alvöruleigumarkað. Ég held að reynslan hafi sýnt okkur að þessi ríkisstjórn er ekki að fara að gera neitt. Ég hvet til þess að það verði stuðningur við þessar tillögur og við reynum að þoka okkur áfram í húsnæðismálum á Íslandi.