145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

139. mál
[14:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið í þeim tilgangi að koma til móts við athugasemdir alþjóðlegs framkvæmdahóps gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Financial Action Task Force, FATF, en sá hópur hefur verið leiðandi á þessu sviði á heimsvísu. Meginmarkmið framkvæmdahópsins er að koma í veg fyrir að hið alþjóðlega fjármálakerfi sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð. Ísland hefur verið aðili að þessum samtökum frá árinu 1991 og hefur skuldbundið sig til að samræma íslenska löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF. Þá er mjög litið til starfa framkvæmdahópsins við mótun reglna á Evrópska efnahagssvæðinu um aðgerðir til að sporna gegn peningaþvætti.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna verði breytt og að lögð verði ríkari krafa á hendur tilkynningarskyldra aðila sem eru að langmestu leyti fjármálafyrirtæki um framkvæmd slíkra kannana.

Megintilgangur breytinganna er að skerpa á þeim skyldum sem nú þegar eru lagðar á tilkynningarskylda aðila að þekkja þá sem þeir eiga í viðskiptum við og hafa skilning á eignarhaldi og stjórnskipulagi þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar til að koma í veg fyrir að fjármálakerfi sé misnotað til peningaþvættis eða í því skyni að fjármagna hryðjuverk. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Lagt er til að bætt verði við orðskýringu á hugtakinu „millifærslu fjármuna“ í samræmi við notkun hugtaksins hér á landi og skilgreiningu FATF á enska hugtakinu „wire transfer“. Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar kanni áreiðanleika viðskiptamanna sinna vegna millifærslna fjármuna að fjárhæð 1.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

Samkvæmt frumvarpinu fellur færsla fjármuna með greiðslukortum utan gildissviðs laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er einnig lagt til að skýrðar verði nánar skyldur tilkynningarskyldra aðila til að staðfesta kennsl raunverulegs eiganda, þ.e. þess sem í raun á starfsemi eða stýrir viðskiptamanni og staðreyna upplýsingar þar um ásamt því að skilja eignarhald og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar.

Loks er í frumvarpinu mælt fyrir um breytingu á reglugerðarheimild ráðherra sem miðar að því að veita ráðherra auknar heimildir til að útfæra ákveðin ákvæði laganna, m.a. hvaða upplýsingar geta talist fullnægjandi og hvaða ráðstafanir geta talist réttmætar til að sannreyna upplýsingar um raunverulegan eiganda.

Með þessum breytingum er verið að bregðast við alvarlegum tilmælum FATF til íslenskra stjórnvalda um tafarlausar lagalegar úrbætur og hefur íslenskum stjórnvöldum verið veittur tiltekinn frestur til að verða við þeim.

Tekið skal fram að bregðist ríki ekki við kröfum hópsins hafa aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á með því að setja ríki á sérstakan lista yfir svokölluð ósamvinnuþýð ríki eða ríkjasvæði. Felst þrýstingurinn meðal annars í því að gera strangari kröfur til þeirra ríkja eða aðila þar búsetta um hvers konar fjármálalega gerninga, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa. Þá kemur til álita að gefa út aðvaranir um að viðskipti við aðila viðkomandi ríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Þetta getur því haft víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild og trúverðugleika þess á alþjóðavettvangi.

Á fundi æðstu yfirmanna framkvæmdahópsins með hæstv. forsætisráðherra og þess ráðherra sem hér stendur sem fram fór hér á landi í janúar síðastliðnum kom fram að verði frekari dráttur á aðgerðum af hálfu Íslands kunni það að hafa áhrif á trúverðugleika okkar kerfis. Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við eitt af þremur helstu tilmælum hópsins.

Hin tilmælin eru annars vegar um birtingu lista yfir hryðjuverkamenn og samtök, samanber lista Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, og eflda peningaþvættisskrifstofu hér á landi hins vegar. Brugðist hefur verið við þessum tilmælum með frumvarpi hæstv. utanríkisráðherra um breytingu á lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og með frumvarpi mínu um breytingar á lögum um meðferð sakamála sem samþykkt voru á 144. löggjafarþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir aðalatriðum frumvarpsins. Ég legg áherslu á mikilvægi málsins og þau sjónarmið um trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á alþjóðlegum vettvangi sem í frumvarpinu felast.

Með þessum orðum legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og þóknanlegrar 2. umr.