145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg rétt og við erum alltaf, a.m.k. ég, að reyna að vanda orðalagið. Ég líkt og fleiri hef orðað það þannig að fjármagn vanti í verkefnið vegna þess að hvort sem okkur líkar betur eða verr var talað um verkefnið til tiltekins tíma, samningarnir voru gerðir til ákveðins tíma. Ég er hins vegar alveg sammála því, og við erum það öll, að það vanti fjármuni í málaflokkinn í heild sinni. Það er nefnilega rétt sem kom fram að oft er látið að því liggja að þetta sé svo dýrt úrræði. Eins og 19. gr. kveður á um og hv. þm. nefndi er það meira huglægt dýrt en raunverulega. Ef við ætlum að tryggja fólki réttinn til þess að lifa sambærilegu lífi og ófatlað fólk hefur tækifæri til, a.m.k. flest, þá er það bara svo. Það kostar fjármuni og það þarf að leggja þá til, við deilum ekkert um það. Svo snýst þetta auðvitað um forgang. Viljum við setja þennan þjóðfélagshóp í tiltekinn forgang, fatlað fólk, velferðarmálin eða hvað það nú er, þ.e. þegar kemur að fjármunum sem nota þarf til þjónustunnar? Við vinstri græn, og stjórnarandstaðan almennt, höfum talað fyrir því. Ég er sammála hv. þingmanni í því.

Ég held að við þurfum að vera vakandi fyrir því, eins og ég hef sagt í dag, við 2. umr. fjárlaga hvar við teljum að frekar eigi að forgangsraða. Ef hægt er að reka ríkissjóð með svokölluðum hagnaði eða afgangi, sem ég hef dregið í efa þar sem málaflokkar eru vanfjármagnaðir, þá held ég að við eigum (Forseti hringir.) að forgangsraða.