145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið mjög gagnleg. Mér finnst ákaflega mikilvægt að taka það alltaf fram þegar við tölum um gjaldmiðilinn að þetta er ekki einfalt mál. Mér finnst það stundum vera sett þannig fram eins og þegar þeir sem aðhyllast krónuna frekar en evruna væna þá sem aðhyllast evruna um að telja evruna leysa öll mál og hafa einhverja ofurtrú á henni og evrusvæðinu en þetta er auðvitað ekki þannig. Skýrsla Seðlabankans um þessa valkosti er 500 og eitthvað blaðsíður. Á þessu máli eru margar hliðar og það er alltaf þannig … (Gripið fram í: 600 og eitthvað.)— Já, 600 og eitthvað blaðsíður, það er vöxtur í þessu eins og öðru, gott ef ekki 700.

Við erum alltaf okkar eigin gæfusmiðir, það held ég að sé augljóst mál. Það er eiginlega tvennt sem mér finnst eftirminnilegt úr greiningu Seðlabankans, annars vegar að krónan sé svo góð vegna þess að hún feli í sér svo mikla aðlögunarhæfni, sem kallað er, þ.e. þegar eitthvað gerist í íslensku efnahagslífi, síld fer, makríll fer, ferðamenn hætta að koma eða eitthvað slíkt eða bankakerfið hrynur, þá falli gengið og hagkerfið aðlagi sig. Um þetta er sagt í skýrslunni og það orðað á varfærnislegu akademísku hagfræðimáli að það kunni að vera svo að í þessu tilviki sé meðalið verra en sjúkdómurinn. Þetta finnst mér mjög áhugavert. Sú aðlögunarhæfni sem þessi litla króna býður í raun og veru upp á hefur haft í för með sér verri afleiðingar en í raun og veru sjálf áföllin. Þetta finnst mér verulegt umhugsunarefni. Það er rakið ágætlega í skýrslunni hvernig allar þessar gengisfellingar hafa leitt til þess að ekki hefur verið traust á grundvelli íslensks efnahagslífs. Það hefur meðal annars birst í kjaramálum og í mjög einkennilegum sveiflum í einkaneyslu sem erfitt hefur verið að stjórna og þensluumhverfi sem sprettur út úr því sem síðan leiðir til erfiðra kringumstæðna í ríkisfjármálum, erfitt að viðhalda aga í þeim. Þetta leiddi síðan til þess að í raun og veru tókum við upp aðra krónu, verðtryggða krónu, sem fjármálalífið treystir og í rauninni lántakendur húsnæðis eins og nýjar tölur sýna um það hvernig lánasamsetningar eru á lánamarkaði. Lántakendur treysta verðtryggðu krónunni betur en hinni hreinu óverðtryggðu krónu. Ég vil bara nefna hvernig fullyrðingin í skýrslunni um að meðalið sé verra en sjúkdómurinn getur verið rétt. Við stöndum hérna uppi með hagkerfi sem er í rauninni ekki með einn gjaldmiðil heldur óverðtryggða krónu, verðtryggða krónu og svo eru fyrirtæki að gera upp í dollurum og evrum. Þetta lýsir allt saman vantrausti á grundvelli efnahagslífsins.

Hitt sem var rakið í greiningunni er að ef við í raun og veru flytjum inn stöðugleika, tökum upp stöðugri gjaldmiðil sem er stöðugri vegna þess að hann er stærri og fleiri þjóðir standa að honum, hann er varinn af sterkum evrópskum seðlabanka og þar fram eftir götunum, þá getur einmitt íslenskt atvinnulíf, sem er ágætlega í stakk búið til að taka vel á móti nýjum tækifærum vegna þess að hér er þrátt fyrir allt hátt menntunarstig og mikil frumkvöðlastarfsemi og miklir sprotar fyrir hendi, vaxið og dafnað — ef við mundum í rauninni flytja inn þennan stöðugleika og fórna aðlögunarhæfninni. Fjölbreytni íslensks atvinnulífs, fjölbreytni í útflutningi eða auknar útflutningstekjur, Seðlabankinn segir í skýrslunni að útflutningstekjur aukist um allt frá 2% upp í 11% með fjölbreyttari flóru fyrirtækja út af stöðugleika, yrði hin nýja undirstaða stöðugleika á Íslandi. Fjölbreyttara atvinnulíf, fleiri stoðir, mundi skapast með því að taka upp nýjan stöðugri gjaldmiðil.

Þessu er velt upp í þingsályktunartillögunni og stóra spurningin er í rauninni: Eigum við að fórna aðlögunarhæfninni fyrir stöðugleika sem við flytjum inn? Stöðugleikinn sem við flytjum inn, sem sumir kalla innfluttan aga, gerir að sjálfsögðu gríðarlegar kröfur til okkar. Við gætum auðvitað endað sem atvinnulaus þjóð á bótum ef við mundum ekki höndla þessar kringumstæður. Hér mundu sveiflurnar birtast þannig að það mundi mistakast að byggja upp atvinnulíf. Auðvitað yrðum við að nota þetta tækifæri og það yrði algerlega undir okkur komið að klúðra því ekki og auðvitað verður maður að halda því til haga að í íslenskri hagstjórn hefur oft tekist að klúðra hlutum, það gæti gerst. Ef við tækjum til dæmis upp evru þá mundu vextir lækka fljótt. Þá gæti gerst að atvinnulíf og einstaklingar mundu skuldsetja sig mjög mikið. Þetta gerðist í raun og veru í aðdraganda hrunsins. Þá voru erlendir gjaldmiðlar öðrum þræði teknir upp með erlendum lánum og á mjög lágum vöxtum. Hagkerfið rauk í þessa vexti út af einhverri uppsafnaðri löngun vegna hás vaxtastigs í mjög langan tíma. Það var stórbrotinn vöxtur í lántöku á árunum fyrir hrun, m.a. út af þeim góðu tíðindum sem fólust í því að vextir voru lægri. Auðvitað getur hið sama gerst ef við tökum upp evru. Þá yrði það auðvitað stúdía hvernig slíkt hrun í kjölfar óhóflegrar lántöku mundi birtast, væntanlega í atvinnuleysi. En það verður eftir sem áður að koma í veg fyrir svoleiðis hagstjórnarmistök. Ég býst við að það verði alltaf verkefnið hvort sem við erum með krónu eða evru. Hrunið mun birtast mismunandi, frekar í atvinnuleysi held ég ef við erum á sameiginlegu myntsvæði en í tilflutningi á lífskjörum og verðmætum ef við erum með okkar eigin krónu.

Þessar spurningar eru allar fyrir hendi. Við erum okkar eigin gæfusmiðir. Ég held að í þessu erfiða og vandrataða umhverfi sem stjórn efnahagsmála í þjóðríki er þá verðum við einfaldlega að horfast í augu við það að við höfum ýmsa kosti. Ég held að það sé líklegt að það borgi sig fyrir þessa þjóð, út af því hvernig hún er saman sett og hvernig hún er stemmd á vinnumarkaði og hvað hún er framsækin og hvað er mikill þróttur í atvinnulífinu, að hafa frekar stöðugleika í gjaldmiðilsmálum en búa við þá margrómuðu aðlögunarhæfni krónunnar sem stuðningsmenn hennar halda mjög á lofti. Þetta er kalt mat.