145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingsályktunartillagan sem við ræðum hér varðar framtíðargjaldmiðil Íslands en það kemur ekkert fram í tillögunni sjálfri að sérstaklega sé um að ræða evru þótt maður geri auðvitað ráð fyrir því þegar kemur að þeim ágæta þingflokki sem leggur tillöguna fram, Bjartri framtíð, sem aðhyllist aðild að Evrópusambandinu og allt í góðu með það.

Ég velti fyrir mér hvert viðhorf hv. þingmanns er til annarra lausna eins og annarra gjaldmiðla, að taka upp annan gjaldmiðil, hvort hann telji það raunhæft og ef svo er hvað það mundi kosta. Í raun og veru er það í samhengi við það hvort það er raunhæft eða ekki, a.m.k. að mínu mati. Ég hef mikinn áhuga að heyra það frá hv. þingmanni því að hann fór heldur ítarlega yfir ýmsa kosti eins og þann að framtíðarþróunin eftir að við leysum gjaldeyrishöftin yrði með þeim hætti að menn mundu nota fjölmarga gjaldmiðla innan lands, sem ég tel alveg mögulegt að gerist eftir að við leysum fjármagnshöftin, eftir það sem á undan er gengið, eftir kreppuna. Það eru svo margir sem hafa lært það af þessum galdeyrishöftum að í eðli sínu sé verðmætt að eiga erlendan gjaldmiðil fyrir þær sakir einar að hann er erlendur og ekki íslenskur.

Mér þykir þessi umræða áhugaverð og mikilvæg, sér í lagi ef við lítum til þess að það lítur út fyrir að við verðum með íslenska krónu í dágóðan tíma í viðbót, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við þurfum að ræða þetta mjög ítarlega. Ég held að íslenskt hagkerfi sé heldur sérstakt, ekki síst vegna krónunnar og smæðar efnahagsins og því alveg þess virði að velta upp möguleikum á einhverjum öðrum gjaldmiðlum sem við gætum tekið upp. Margir vilja meina að það sé fráleitt. Menn eru misharðorðir þegar kemur að þeirri umræðu. Ég tók eftir því þegar kanadadalur var nefndur sérstaklega, mönnum þótti það versti kosturinn af öllum. Það getur vel verið að það sé satt. Ég velti því alla vega fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um slíkar hugmyndir.