145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:05]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem flutti mjög áhugaverða ræðu að þetta er málefni sem er verðugt að ræða í þingsal. Það voru áhugaverðar hugmyndir sem hún velti fyrir sér. Ég tók eftir því að hún velti upp þeirri hugmynd að hafa myntfrelsi eins og kannski þekkist. Það er ákveðin hugmynd í hagfræðinni að hver og einn noti bara þá mynt sem heppilegust er fyrir hann og hans fyrirtæki og greiði út í þeim gjaldmiðli sem hentar, greiði skatta í þeim gjaldmiðli sem hentar þannig að við tökum í rauninni upp alla gjaldmiðla sem okkur hentar og megi besti gjaldmiðillinn vinna. Þetta er áhugaverð hugmynd og mjög mikið skoðuð. Gallinn við hana er eiginlega sá sami og einhliða upptaka til dæmis bandaríkjadollars. Ef við mundum ákveða að taka upp bandaríkjadollar þá er gallinn sá að við yrðum að kaupa inn bandaríska seðla, kannski fyrir 40 milljarða, til að skipta út seðlunum sem eru í umferð og við yrðum að breyta öllum innstæðum í bönkum yfir í bandaríkjadollara og vona það besta. Hættan væri sú að ef eitthvað bjátaði á yrði fjármagnsflótti og fólk vildi taka dollarana úr landi, flytja þá úr landi og að lokum kæmi að því að allir dollararnir sem keyptir hefðu verið á vörubretti, þessir 40 milljarðar, væru búnir og þá þyrfti að kaupa inn meira til að einhver peningur væri í hagkerfinu. Allir peningar mundu í sjálfu sér flýja hagkerfið. Það yrði þá ekki hægt að bregðast við því með neinum hætti öðrum en að hringja í bandaríska seðlabankann og segja: Eruð þið ekki til í að lána okkur dollara því að við þurfum að nota þá?

Vandamálið sem fylgir einhliða upptöku er að það er ekkert til þrautavara fyrir gjaldmiðilinn og við vandamálið bætist allur sá viðskiptakostnaður að þurfa að eiga við mjög margar ólíkar myntir og vita aldrei á hverju er von með alls konar gengi. Maður getur verið með reiknivél og reiknað sig út úr því en þetta er talin vera dýrasta mögulega útgáfan (Forseti hringir.) af einhliða upptöku gjaldmiðils.

Ég vildi koma þessu á framfæri.