145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög fróðleg og að sumu leyti skemmtileg umræða. Hér hafa komið fram ýmsar fullyrðingar en einnig vangaveltur og það er ágætt að eiga umræður í þingsal þar sem menn velta vöngum, enda erum við að fjalla um málefni sem eru ekki í svart/hvítum lit, alls ekki. Á þessu eru að sjálfsögðu ýmsar hliðar enda gengur þingmálið út á að framkalla rannsókn og könnun og umræðu um málið sem óvefengjanlega er viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir að ræða inn í framtíðina.

Ég sagði að fram hefðu komið ýmsar vangaveltur. Ég veit ekki alveg hvort hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni hafi verið alvara eða hvort hann var að grínast þegar hann sagði að í því gæti verið fólgin ákveðin vörn fyrir Ísland að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þetta var reyndar orðað í aðdraganda hrunsins þegar tiltekinn ráðherra í fyrrverandi stjórn lýsti því hátíðlega yfir titrandi röddu í Hörpu frammi fyrir fjármálamönnum í Eldborginni að hann ætti sér draum og draumurinn væri sá að Íslandi yrði fjármálamiðstöð. Á þeim tíma mærðu menn mjög frjálsa flutninga fjármagnsins, að þeir ættu að fá að streyma óheft yfir landamæri og fara um allan völl og slíkum hugmyndum hefur verið hampað mjög vestan hafs og austan, að sjálfsögðu í Bandaríkjunum, vöggu kapítalismans og einnig vöggu markaðshyggjunnar sem Evrópusambandið hefur orðið í seinni tíð.

Staðreyndin er hins vegar sú að hvorki í Bandaríkjunum né innan Evrópusambandsins hefur það mikla frelsi leitt til ávinnings fyrir samfélögin öll vegna þess að þar er auðnum einmitt mjög misskipt. Við þekkjum það í Bandaríkjunum að kannanir hafa sýnt að þar fari misskipting vaxandi og sömu sögu er að segja frá Evrópu.

Ég er tiltölulega nýkominn af þingi Evrópuráðsins í Strassborg. Þar var kynnt skýrsla sem hafði verið unnin í samstarfi við OECD, eða það byggt á tölulegum upplýsingum sem þaðan komu sem sýndu fram á, eða svo héldu skýrsluhöfundar, að 40% samfélaganna að jafnaði innan Evrópusambandsins hefðu ekki átt hlutdeild í efnahagslegum ávinningi innan sambandsins á undangengnum árum og áratugum og að misskipting færi vaxandi þrátt fyrir frelsi fjármagnsins og allar hinar rómuðu ákvarðanir sem hafa verið teknar fjármagninu í hag á þeim bænum.

En jafnframt því sem ég þakka fyrir umræðuna og vangaveltur til dæmis um kosti þess að taka upp gjaldmiðla annarra ríkja, bandaríkjadal eða evru, eins og sumir vilja sem eru fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið, þá langar mig til að nota tækifærið fyrst hv. 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, Guðmundur Steingrímsson, er hér á meðal vor og hefur fylgt máli sínu eftir í umræðunni í dag, að spyrja hann út í hömlur á fjármagnsflutninga sem væru fólgnar í skattlagningu fjármagns, stundum kennt við James Tobin, Tobin-skatt svokallaðan. Þeim hugmyndum er nú að vaxa ásmegin innan Evrópu og í Bandaríkjunum einnig og reyndar víðs vegar um heiminn til að hamla gegn áhættufjárfestum sem eru að leika sér að gjaldmiðlum, smáum og stórum, í eigin ábataskyni.

Hvað finnst hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um hugmyndir að Ísland beiti sér fyrir því að lagður væri á slíkur skattur (Forseti hringir.) og ávinningurinn yrði látinn renna til félagslega uppbyggilegra mála jafnhliða því sem slíkt hamlaði gegn óheftum fjármagnsflutningum og spekúlasjónum með peninga?