145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:20]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverðar hugleiðingar. Ég tek undir með honum að mjög áhugavert væri að skoða nánar möguleikana sem felast í umræddum Tobin-sköttum, sem eru honum hugleiknir. Ég held að það sé mikið atriði fyrir þjóð með lítinn sjálfstæðan gjaldmiðil, til þess að tryggja að raunhagkerfið geti notið þess frelsis sem það þarf til að geta átt eðlileg viðskipti við útlönd, að lagðir séu litlir Tobin-skattar, eins og hafa verið kynntir, á óæskilegar fjármagnshreyfingar sem geta ruglað gengi gjaldmiðilsins og komið raunhagkerfinu úr jafnvægi. Þetta eru vel þekktar kenningar. Ég held að það væri mjög gott ef við gætum fengið tækifæri til að ræða það mál í meiri smáatriðum í þingsal.

Ég er með eina spurningu til hv. þingmanns sem fjallar um myntbandalagið sjálft, sem er til umræðu hér. Það hefur verið sett fram sem valkosturinn við það að vera með krónu áfram, eini raunhæfi valkosturinn. Samkvæmt skýrslu Seðlabankans og samkvæmt mörgum sem hér sitja er það eini raunhæfi valkosturinn í myntmálum framtíðarinnar fyrir Ísland að vera annaðhvort með krónu eða evru, ganga í myntbandalagið. Nú eru til nóbelsverðlaunahagfræðingar og merkir hagfræðingar og Joseph Stiglitz hefur sagt — má ég lesa og vitna í ensku?

(Forseti (RM): Nei.)

Þá þýði ég, með leyfi forseta: „Upprunalegi vandinn er evrumyntbandalagið sjálft.“ Paul Krugman hefur sagt: „Myntbandalagið var gríðarleg mistök.“ Thomas Piketty segir: „Við höfum skapað skrímsli.“

Það sem þessir aðilar eru óánægðastir með er að jaðarríkin í myntbandalaginu upplifa svokölluð harðindi eða harðræði til þess að geta þrifist innan myntbandalagsins. Þetta harðræði bitnar alltaf á verkalýðnum, heimilunum og þeim sem minnst mega sín, en auðmennirnir (Forseti hringir.) ná að sleppa úr landi með sína aura.