145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:39]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka málshefjanda, hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, fyrir að taka þetta mál upp. Ég tek að sumu leyti undir með síðasta ræðumanni varðandi mikilvægi þess að byggja upp menningu víðs vegar um landið í því skyni að efla okkur og styrkja sem ferðamannaland vegna þess að stór hluti af því sem fólk vill koma og sjá er ekki bara ósnortin náttúra heldur líka hvernig við lifum sem þjóð og sögu okkar og menningu.

Eitt af því sem ég held að sé mjög mikilvægt í tengslum við að opna landið á fleiri stöðum en í Keflavík, þ.e. að opna fluggáttir, er einmitt að styrkja innviði á þeim svæðum hvað varðar menningu. Það er ekki nóg að bjóða upp á fallega náttúru heldur vill fólk koma og skoða eitthvað.

Samanburðurinn milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar vill oft verða mjög hvimleiður og leiðinlegur vegna þess að við erum það fá að við þurfum ekki að stilla okkur upp í svona lið. Ég held að það hafi tekist vel á höfuðborgarsvæðinu að standa vörð um menningu, sérstaklega í Reykjavík. Innlegg Besta flokksins fannst mér til dæmis vera mjög mikilvægt fyrir menningu í Reykjavík á fjárhagslega erfiðum tímum. Þá var haldið mjög fast utan um þá litlu fjármuni sem þó fóru í menningartengd verkefni í borginni. Menning er einhvern veginn þannig að með öllum þeim verkefnum sem hið opinbera sinnir verður oft mjög erfitt að standa í lappirnar hvað þessa peninga varðar því að það eru alltaf milljón aðrir hlutir sem geta talist mikilvægari í augum einhvers.

Ég hvet hæstv. ráðherra menningarmála til að standa í lappirnar þegar að þessu kemur því að þetta skiptir mjög miklu máli fyrir það sem við höfum upp á að bjóða og fyrir þá sem hingað vilja koma meðal annars.