145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Enn og aftur er þetta áfengisböl komið til umræðu á Alþingi. Mér finnst þetta frumvarp vera mikil tímaskekkja. Ég held að það sé í áttunda sinn sem þetta mál kemur fyrir þingið eða samsvarandi mál. Ég hefði talið að við hefðum einhverjum öðrum hnöppum að hneppa á hinu hv. Alþingi en að berjast fyrir því að koma brennivíni í búðir sem víðast til að styðja við bakið á heildsölum, verslunum og innflutningsaðilum í þeim efnum. Ég hefði talið að vandamálin væru víða eins og í heilbrigðiskerfinu okkar sem vantar svo sannarlega mikið fjármagn.

Þessi umræða er aftur komin hér í gang og búin að vera mjög fróðleg og tekist á með rökum hér í dag. Menn tala fyrir óheftu frelsi og aðrir draga fram sterk rök fyrir því að við þurfum sem siðað samfélag að bera sameiginlega ábyrgð á okkur sem samfélag. Við setjum okkur í dag fjölda reglna sem við gerum okkur kannski ekki grein fyrir. Við erum auðvitað með lög og reglugerðir sem hamla hinu svokallaða frelsi sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson talar fyrir. Hann talar mikið um frelsi, en frelsi fylgir líka ábyrgð. Frelsi eins getur verið helsi einhvers annars. Eins og ég nefndi hér í andsvari í dag erum við skyldug til að nota bílbelti. Ættum við að hafa frelsi til þess að ráða því bara sjálf hvort við tækjum þá áhættu að stórslasa okkur í umferðarslysi? Ætti það ekki með sömu rökum að vera val hvers og eins hvort hann tæki þá áhættu eða ekki? Við höfum fjöldann allan af ýmsum reglum, umferðarlög og annað, sem hamla því að hvert og eitt okkar geti bara látið eins og okkur dettur í hug hverju sinni og hvar sem er. Það væri hægt að koma með langan lista yfir allt sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson þarf að hlíta. Vonandi hlýðir hann þeim lögum og reglum sem samfélagið hefur sett sér sem siðað samfélag.

Það er voða fallegt að tala alltaf um frelsi á hátíðarstundum en tala svo ekki um ábyrgðina sem því fylgir og hugsanlegar afleiðingar þess að hafa óheft frelsi. Við erum búin að hafa fyrirkomulagið þannig að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi. Ég tel að það hafi gefist ágætlega. Það er enginn að segja að það komi í veg fyrir vandamál í kringum áfengisneyslu eða vímuefnaneyslu í landinu. En meðan við leyfum áfengi, að það sé lögleg vara, þá tel ég að þetta fyrirkomulag sé best til þess fallið að takmarka skaðann af áfengi. Ég held að það séu draumórar eins og Framsóknarflokkurinn fór fram með Vímulaust Ísland árið 2000, en við getum takmarkað skaðann af löglegum vímuefnum sem við köllum svo. Það hefur í raun og veru verið unnið grettistak í þessum málum undanfarin ár af fjölda frjálsra félagasamtaka. Ríkið hefur átt sinn þátt í því með lýðheilsustefnu sinni og landlæknisembættið.

Þegar við alþingismenn fáum áskorun vegna þessa frumvarps frá 23 aðildarsamtökum, sem eru í samstarfsráði um forvarnir, um að við eigum ekki að samþykkja það og þau telja upp ótal gagnmerk rök máli sínu til stuðnings þá finnst mér mjög léttvægt að rökstyðja þetta þannig að fólk eigi að geta þegar því dettur í hug, kannski klukkan níu á kvöldin, fengið sér bjór en það geti ekki farið út í verslun og keypt sér bjór. Ég segi bara á góðri íslensku: Hvað með það? Ég hefði getað sagt það á ensku líka. Þess vegna finnst mér þetta mál vera á brauðfótum. Það er einhver þráhyggja í stuttbuxnaliðinu í Sjálfstæðisflokknum sem heldur því á lofti. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með stjórnmálaaflið Pírata að vera svona nálægt heimdellingum og frjálshyggjuliðinu í Sjálfstæðisflokknum í þessum slag fyrir peningaöflin í landinu sem bíða bara eftir því að geta malað gull um leið og ÁTVR missir einkaleyfið og þeir fá að græða á vanda margra sem heilbrigðiskerfið síðan glímir við. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þær skoðanir þó að ég virði þær vissulega. Ég hefði haldið að samfélagsleg ábyrgð Pírata í málum eins og þessu væri meiri, málum sem snerta alla landsmenn, allar fjölskyldur landsins með einum eða öðrum hætti.

Það hvernig búið er um áfengissölu og hvernig stefnumörkun hefur verið undanfarin ár hefur vissulega dregið úr áfengisneyslu íslenskra ungmenna með góðum árangri. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það er ekkert hægt að halda því fram að þótt útibúum ÁTVR hafi fjölgað undanfarið sé það því að þakka að þeim hafi fjölgað að þessi forvarnastefna hafi náð árangri með minni neyslu ungmenna í dag á áfengi. Það er langt því frá. Vissulega hefur útibúum fjölgað, en þeim hefur fjölgað til að mæta því að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum að hafa þokkalegt aðgengi að þessari vöru, þeir sem mega neyta hennar og hafa aldur til að versla hana, að það sé ekki bara á höfuðborgarsvæðinu og stærstu byggðakjörnum landsins sem hægt er að nálgast áfengi.

Mér finnst í dag vera búið að draga fram svo sterk lýðheilsuleg rök gegn þessu máli að ég ætla að taka aðeins byggðavinkilinn á það vegna þess að hann skiptir líka máli. Menn hafa verið að fela sig á bak við það að nú geti verslanir á litlu stöðunum séð fram á bjartari tíma, geti farið að selja brennivín og áfengi og það hressi upp á efnahagsreikning þeirra og allt verði svo landsbyggðarvænt með því að koma áfengi í verslanir. Í dag er þokkalegt aðgengi að áfengi. Ég hef ekki heyrt frá landsmönnum í kjördæmaviku eða heyrt einn eða neinn kvarta undan því að hafa ekki nægilegt aðgengi að áfengi. Það hafa ekki verið neinar raddir upp um það.

Ef þetta fer eins og þeir sem styðja þetta frumvarp og þeir sem leggja það fram vonast til þá er ég handviss um að verðið á áfengi mun hækka mjög mikið, sérstaklega úti á landsbyggðinni þar sem flutningskostnaður mun leggjast ofan á verðið. Í dag er sama verð á áfengi hvar sem er á landinu.

Ég beini þessari spurningu til hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar: Er það þá ekki líka réttindi neytandans að hafa sama verð um land allt eins og er tryggt í dag? Eru það ekki réttindi neytandans? Nei, hann hristir höfuðið, svo er ekki. Hv. þingmaður er bara staddur með frjálshyggjumönnum, markaðurinn á að ráða öllu og það á ekki að vera neinn jöfnuður þar á ferðinni, hvorki í þessu né einhverju öðru.

Tegundir af áfengi. Í dag geta neytendur hvar sem er á landinu nálgast mikið úrval af tegundum og geta fengið að panta þær tegundir sem þeir vilja. Það skortir ekkert upp á þá þjónustu sem ÁTVR hefur veitt. Þeir hafa verið mjög strangir á því að hleypa ekki þeim inn í verslunina til að versla sem mega ekki versla þar vegna aldurs. Það er til fyrirmyndar.

Ef fer sem horfir þá sé ég fyrir mér að við sem búum úti á landi eigum þess kost að versla einhver ódýr bónusvín og höfum ekki þann möguleika sem hv. þingmaður og þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafa að skokka út í 10–11 á kvöldin og kaupa sér það sem þeim þóknast vegna þess að það verður ekkert í boði úti á landi á fámennari stöðum um miðjan dag. Það verður ekkert í boði. Minni verslanir um landið munu ekki hafa efni á því að liggja með einhvern lager af víni. Það munu verða ódýr kassavín og einhverjar örfáar tegundir sem bjóðast. Við munum fara mörg ár aftur í tímann hvað þetta varðar og nógur er nú samt, finnst mér, ójöfnuðurinn milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins þó að þetta bætist ekki við í nafni einhvers frelsis, leti fólks til þess að afla sér áfengis á skikkanlegum tíma sólarhrings. Ef þetta er mesta bölið sem hrjáir þá sem flytja þetta mál gagnvart sinni þjóð þá ætti maður nú ekki að hafa miklar áhyggjur af öðru, þ.e. ef þetta er í forgangi.

Mér fannst með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra legðist svo lágt að nefna þetta mál í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hér í haust. Þetta er eitt af forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins á þessu þingi. Það er alveg með ólíkindum hvað menn eru fjarri því sem brennur á þjóðinni. Ég verð að segja alveg eins og er, þetta er hreinlega sorglegt. Ég tala nú ekki um þegar stefna velferðarráðuneytisins í áfengis- og vímuvörnum liggur fyrir. Þar segir að takmarka eigi aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum. Eru þetta marklaus plögg sem menn leggja fram og gefa út sem sína stefnu?

Áfengi er ekki nein venjuleg neysluvara. Við verðum að horfast í augu við allan þann vanda sem fylgir neyslu áfengis. 15% landsmanna leita sér einhvern tímann á ævinni hjálpar vegna misnotkunar á áfengi. Það er enginn smáfjöldi. Um 48 þúsund núlifandi Íslendingum verður freistað með áfengi í öllum matvöruverslunum landsins með einum eða öðrum hætti.

Ég skammast mín ekkert fyrir það að vera með einhverja forsjárhyggju. Ég veit ekki hvernig maður hefði átt að ala upp börnin sín ef maður hefði aldrei verið með neina forsjárhyggju. Ef við viljum hafa ríki og samfélag og lifa eins og siðmenntuð þjóð þá er bara eitt af því sem við tökum höndum saman um að gera að hafa einhverja (Forseti hringir.) forsjárhyggju. Í þessum efnum eigum við að hafa hana öfluga.