145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[13:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það gerist að hæstv. forsætisráðherra rýkur á dyr undir sjálfsögðum athugasemdum þingmanna um að honum beri að standa skil á málum gagnvart þinginu, það er ekki í fyrsta skipti.

Hér er verið að tala um beiðni um sérstaka umræðu. Um hvað? Um eitt stærsta kosningaloforðið sem lagt var fram fyrir síðustu kosningar. Af hverju vill ekki forsætisráðherra eiga þetta samtal við Alþingi?

Þetta setur vondan svip á þingið. Það er svona hegðun sem ýtir undir vantraust á stjórnmálunum og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á því hvernig komið er í afstöðu samfélagsins gagnvart stjórnmálunum í heild.

Það er svona hegðun, það er svona lítilsvirðing gagnvart þinginu og gagnvart þjóðinni sem við sitjum uppi með. Virðulegur forseti verður fyrir hönd Alþingis að grípa inn í stöðu mála. (Gripið fram í: Heyr. heyr.)