145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

kaup á nýjum ráðherrabíl.

[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég sá eins og hv. þingmaður fréttir um að ég væri að kaupa nýjan bíl, en þar var væntanlega átt við að forsætisráðuneytið eða Stjórnarráðið væri að fjárfesta í bíl. Þetta er reyndar líklega í fjórða skiptið sem ég sé fréttir um að ráðuneytið eða ég sé að eignast nýjan bíl. Hugsanlega reynist þetta rétt núna, ég skal ekki segja, en ég veit ekki nákvæmlega hvernig sá bíll verður eða hvað hann eyðir miklu eða hvernig þau atriði eru sem hv. þingmaður spurði út í. Ég veit hins vegar að menn leggja mikið upp úr því að haga málum þannig að slík fjárfesting feli ekki í sér veruleg útgjöld fyrir ríkið eins og menn hafa gert í öðrum ráðuneytum. Þess vegna hefur verið samið við framleiðendur eða innflytjendur þessara bíla um að kaupa þá á verulegum afslætti, það miklum afslætti að hægt verði að selja bílana aftur á sambærilegu eða jafnvel hærra verði, þ.e. að ríkissjóður verði ekki fyrir verulegum fjárútlátum af þessum sökum. Meira veit ég ekki um málið að svo komnu, virðulegur forseti.