145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er áreiðanlega kunnugt að þetta mál hefur komið til umræðu hér mörgum sinnum á umliðnum áratugum. Það hefur alltaf verið sérkennileg tregða á hinu háa Alþingi gagnvart því að nýta þjóðfánann með þessum hætti, alveg eins og það var mikil tregða að veita heimild til þess að hengja íslenska fánann upp í Alþingi. Ég hafði reyndar, svo ég komi fram með mína persónulegu skoðun, allt aðrar hugmyndir um það hvernig ætti að nýta fánann inni í þessum þingsal heldur en í dag. Það er nú önnur saga.

Ég tel að hægt væri að gera úr íslenska þjóðfánanum staðlað merki sem gæti orðið tákn fyrir allan þann hreinleika sem á að tengja Íslandi, íslenskri framleiðslu og heimsóknum til Íslands. Þess vegna hvet ég hæstv. forsætisráðherra til þess að velta því fyrir sér hvort hann ætti ekki að taka frumkvæði að því að slíkt merki verði búið til og síðan verði lagt atgervi og fjármagn í það að koma því á framfæri gagnvart umheiminum. Alveg eins og Neytendastofa er kjörin til að fylgjast með því að menn fari ekki út fyrir reglur sem settar verða um notkunina finnst mér alveg koma til greina að Íslandsstofu, sem er það tæki sem ríkisstjórnin hefur til þess að koma Íslandi á framfæri, verði falið að markaðssetja hið nýja merki sem mundi þá hvíla á þjóðfánanum. Þetta er að minnsta kosti hugmynd sem ég tel að sé einnar messu virði fyrir hæstv. forsætisráðherra að sofa með undir litla heilanum.