145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög fróðlega ræðu. Hún var ekki löng en hún var innihaldsrík og vísa ég þar til þess sem þingmaðurinn sagði um blaðaskrif um málið að undanförnu, þar á meðal vísaði hún í grein eftir Róbert H. Haraldsson í Fréttablaðinu í gær þar sem hann talaði um rofið sem yrði á þeirri sátt sem hefði ríkt um þessi mál á Íslandi. Mér fannst líka fróðlegt að hlýða á þær upplýsingar sem þingmaðurinn reiddi fram úr heilbrigðiskönnunum á Bretlandi og víðar um hverjar afleiðingar óhófleg áfengisneysla gæti haft og hefði óumdeilanlega haft þar í landi.

Það er annað sem ég staðnæmist við í málflutningi hv. þingmanns, það var það sem hún kallaði, ef ég heyrði rétt, hinn íslenska veruleika sem stundum væri vísað til í þessari umræðu. Nú er það svo að hv. þingmaður þekkir vel til á landsbyggðinni, er frá Ólafsfirði og gjörþekkir ferðabransann þar og lífshætti alla, en því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að breytt fyrirkomulag á áfengisútsölunni kunni að koma smáum byggðarlögum í koll. Ég er ekki þeirrar skoðunar, en mér leikur forvitni á að heyra hver afstaða hv. þingmanns er til fullyrðingar um þetta efni í þessari umræðu um ÁTVR.