145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 2012 skipaði ríkisstjórn Íslands starfshóp til að móta heildstæða stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum. Þessi starfshópur skilaði af sér skýrslu í lok árs 2013. Þá var þáverandi ríkisstjórn farin frá og núverandi ríkisstjórn tekin við stjórnartaumunum. Í lokaorðum þeirrar skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi, ólögleg vímuefni og misnotkun ávana- og fíknilyfja og vefaukandi stera að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum. Einnig er mikilvægt að virkja allt samfélagið til skilnings og samstöðu um aðgerðir og viðhorf til áfengis og annarra vímugjafa.

Nánari útfærsla stefnunnar, með skilgreindum mælanlegum markmiðum og aðgerðum til að ná ofangreindum yfirmarkmiðum, mun koma fram í aðgerðaáætlun sem verður unnin á árinu 2014 og mun gilda í tvö ár í senn. Við val á aðgerðum og forgangsröðun þeirra verður meðal annars stuðst við tillögur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Haft verður víðtækt samráð við hagsmunaaðila í þeirri vinnu.“

Þetta eru lokaorðin í þeirri skýrslu sem ég vísaði til.

Það var síðasta ríkisstjórn sem skipaði þennan starfshóp. En nú kom að núverandi ríkisstjórn því að hún tók þessa skýrslu — og hvað skyldi hún hafa gert? Hún samþykkti hana. Hún samþykkti skýrsluna með þeim orðum sem ég hef nú lesið upp. Þetta gerði hún um áramótin 2013/2014. Ég hef vísað til þess sem síðan birtist á vef heilbrigðisráðuneytisins eða Stjórnarráðsins 24. janúar 2014. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Stefnan tekur jafnt til neyslu áfengis, ólöglegra vímuefna og misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum sem valda ávana og fíkn.“

Síðan eru þau markmið sem stjórnarráðsvefurinn kallar yfirmarkmið skilgreind. Fyrsta yfirmarkmiðið er þetta, með leyfi forseta:

„Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“

Það er í ljósi þessara yfirlýsinga, þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin kynnti og hæstv. heilbrigðisráðherra er ábyrgur fyrir, sem við höfum viljað fá hann hingað í salinn til að vita hvort hann kannist við sjálfan sig og sín orð og hvort honum finnist ekki eðlilegt að saman fari orð og efndir.

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins fimm mínútur til umræðunnar. Hún hefur um margt verið fróðleg. En hún er aðeins hálfbyrjuð, henni er ekki lokið. Hér kom hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á. Andersen, og sagði með nokkrum þjósti að hér hefðu verið reiddar fram og veifað þverhandarbreiðum skýrslum með upplýsingum sem hún gæfi lítið fyrir og var þar vísað í rit sem gefin hafa verið út af hálfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og landlæknisembættisins, sem hefur gert álit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að sínum. Það var gert 17. júlí í fyrra á vef landlæknisembættisins.

Mig langar til að fá að vita og það er sorglegt að þessi þingmaður og fyrrverandi starfsmaður (Forseti hringir.) Verslunarráðsins skuli ekki vera hér á meðal okkar til að greina okkur frá því hvaða fróðleik hún býr yfir umfram það sem menn þekkja til hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um þessi mál.