145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Hæstv. forseti. Þegar skoðuð eru mörg mál sem hafa komið frá Alþingi, og það má líka skoða framkomu ýmissa stofnana, t.d. Útlendingastofnunar, er margt sem gefur til kynna að á vettvangi stjórnvalda og Alþingis heyrist raddir innflytjenda engan veginn nógu vel. Það fyrsta sem þarf að gera í því er auðvitað að stjórnvöld og þing standi sig betur í að fá raddir innflytjenda að borðinu.

Það er líka fleira sem er hægt að gera og má þar t.d. horfa til félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda. Hér á Íslandi eru starfandi 34 félags- og hagsmunasamtök innflytjenda. Þetta eru félög fólks af ákveðnum uppruna, félög fólks sem talar ákveðið tungumál, félög sem vinna að ákveðnum markmiðum, t.d. móðurmálskennslu. Þetta er mikil flóra, mikið og gott starf sem þarna fer fram. Nefna má samtök eins og Project Polska og Samtök kvenna af erlendum uppruna og mörg önnur góð félög.

Sem dæmi um gott verkefni hjá einum slíkum samtökum er að á heimasíðu Project Polska, samtaka fólks af pólskum uppruna, er hnappur sem hægt er að ýta á og tilkynna ef fólk hefur orðið fyrir mismunun, slæmri framkomu eða lent í slæmum hlutum. Þá fer í gang ferli hjá þessu félagi þar sem fólkinu er veitt ráðgjöf og skoðaðar mögulegar aðgerðir sem þarf að fara í. Þetta er allt saman mjög gott og mikilvægt starf.

En hérna á Íslandi eru ekki starfandi í dag heildarhagsmunasamtök félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda, öfugt við flest þau lönd sem við berum okkur saman við. Slík samtök gætu gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki þegar kemur að stefnumótun og framkomu stjórnvalda í ýmiss konar málum. Það má t.d. sjá fyrir sér að slík samtök gætu verið gríðarlega mikilvægur umsagnaraðili hér á Alþingi (Forseti hringir.) þar sem önnur samtök hafa mjög greiðan aðgang. Því kalla ég eftir því að slík samtök verði stofnuð og hvet þingið til að fjármagna slík samtök þegar þar að kemur.


Efnisorð er vísa í ræðuna