145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í upphafi máls síns áðan að margar hliðar væru á þessu máli. Það er alveg hárrétt og skoðanir á því eru skiptar. Allt snýst þetta um okkur sjálf, sem við getum í einu orði kallað manneskjur. Ég vil ekki trúa því að einhver taki að sér að vera staðgöngumóðir, að bera barn undir belti fyrir foreldra sem geta ekki átt börn, út af félagslegum þrýstingi. Ég trúi ekki að það geti gengið í gegn.

Þá kem ég aftur að nefndinni og álitinu frá prófessornum sem lagði þetta til við okkur á sínum tíma þegar við vorum að vinna með þingsályktunartillöguna í heilbrigðisnefnd. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé rétt munað hjá mér að tillagan hafi fyrst komið frá þeim ágæta prófessor um að sú vinna sem fer í gang áður en af þessu verður muni leiða til þess að það verði samþykkt eða því hafnað. Það er grundvöllurinn að þessu máli. En það er líka þannig, eins og við höfum rætt og ég gerði að umtalsefni við það fólk sem kom fyrir heilbrigðisnefnd á sínum tíma og sagði okkur þetta, að það getur ekki átt barn og finnst ekkert sérstaklega gaman að gera þetta en það er fær leið.

Við höfum verið frumkvöðlar í ýmissi löggjöf, t.d. gagnvart samkynhneigðum og fleirum. Þess vegna held ég að við séum ekki að stíga nein hættuskref með þessu ef það verður til þess að þetta verður faglegra ferli, betra ferli ef þetta er gert hjá okkur í íslensku heilbrigðiskerfi heldur en ef farið er til annarra landa til að fá þessa þjónustu.