145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mál sem er flókið að því leyti að það snertir líklegast kjarna hverrar manneskju. Þegar barn fæðist segjum við í raun og veru að hefjist ný saga nýs einstaklings, óskrifað blað. Í öllum sögum sem við skrifum, sama hvaða nafni þær heita og hver skrifar þær, snýst kjarninn í flestum þeirra um þetta. Hann snýst um samskipti barna við foreldra og foreldra við börn. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að í umræðu um þetta mál séu tilfinningar. Við eigum að leyfa okkur að hafa þær hér. Það eru siðferðileg rök sem þarf að ræða en líka tilfinningarök, fyrir utan önnur hefðbundnari rök, pragmatísk, lagaleg og tæknileg rök. Það er mikilvægt að við reynum að nálgast hvert annað í þessari umræðu þannig að við öðlumst skilning á þeim rökum öllum því að þetta er, að ég tel, mál sem snertir þennan kjarna sem við búum öll yfir því að öll höfum við jú fæðst sem hér erum.

Auðvitað þrá það flestir að eignast börn. Það er hins vegar svo, og ég vil segja að það sé mitt mat eftir að hafa lesið mér til um þetta, þótt ég geti líka skilið þann harm sem felst í því að geta ekki eignast börn, þá lít ég ekki á það sem rétt fólks að eignast börn. Þar tek ég undir túlkun almennt á mannréttindum á alþjóðavettvangi þar sem segja má að tilhneigingin sé sú að líta á rétt barna til foreldra sem mun ríkari rétt en réttinn til að stofna fjölskyldu. Það tel ég að verði að vera mjög mikilvægt leiðarljós í umræðum okkar um þetta mál, þ.e. réttur þess sem ekki getur talað hér í þessum umræðum, réttur barnsins. Það finnst mér að við verðum að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Það er mikilvægt að við skiljum þann harm sem það getur verið að geta ekki eignast barn með venjulegum hætti, en ég tel þó varasamt að líta á það sem rétt.

Hins vegar er það svo að tæknileg umgjörð þessara mála hefur gerbreytt stöðunni. Það er auðvitað ekki bara í þessu máli þar sem löggjöfin og samfélagið eru í raun og veru langt á eftir tækniþróun. Að því leytinu til skil ég þá sem segja að það verði að setja tæknina í einhvern ramma, við verðum að setja ramma utan um tæknina, en ég mæli um leið þau varnaðarorð að með því að setja ramma í formi löggjafar um þessa tækni erum við um leið að stíga eitt skref til þess að breyta viðmiðum um það hvernig við hugsum um fæðingar, konur og karla, hvernig við lítum í raun og veru á þennan atburð sem er svo nátengdur kjarnanum í okkur sjálfum. Með því að setja löggjöf um staðgöngumæðrun erum við um leið að segja að þetta sé eðlilegt, ekki eitthvert frávik eða óvenjulegt heldur hluti af mjög eðlilegu ferli þótt við vitum í sjálfu sér ekkert um það hvort það verði endilega algengt. Það vitum við ekki.

Með þessu frumvarpi sem snýst um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er verið að leggja til lagaramma. Ég tek það fram að ég held að sá hópur sem skrifaði þetta frumvarp hafi reynt eftir fremsta megni að vanda sig við það að skrifa frumvarp sem gerir ráð fyrir því að við ætlum að hafa lagaramma um staðgöngumæðrun. Þannig að fyrst þurfum við að spyrja spurningarinnar: Hvað felur það í sér að hafa lagaramma um staðgöngumæðrun? Ég ítreka varnaðarorð mín frá því áðan, því að um hvað snýst málið? Það snýst um það að við smíðum ákveðinn ramma þar sem fólk getur gert með sér samkomulag, segjum að kona og hjón geti gert með sér samkomulag um að viðkomandi kona gangi með barn fyrir hjón í níu mánuði, barnið fæðist og síðan verður það sem kallað er foreldrayfirfærsla, þ.e. eftir að barn fæðist. Það kemur fram í frumvarpinu að í þessari viljayfirlýsingu eða samkomulagi sé þó ekki unnt að krefjast efnda. Það vekur spurningar um það hvort staðgöngumóðirin geti sagt sig frá samkomulaginu, væntanlega eftir að barnið fæðist. Geta foreldrarnir sagt sig frá samkomulaginu eftir að barnið fæðist, þ.e. viðtökuforeldrarnir eða hvað við köllum þá? Hvernig ætlum við leysa úr því ef báðir aðilar segja sig frá samkomulaginu eftir að barn fæðist eins og hér var spurt um áðan? Þarna kemur fram að maður geti sagt sig frá því sem er í sjálfu sér eðlilegt því að það væri mjög óeðlilegt að um bindandi samkomulag væri að ræða. Það sem gerist, eins og það sem ég nefndi áðan með kjarnann, er að það að ganga með barn í níu mánuði er ekki bara að hýsa lífveru sem kemur manni ekkert við heldur myndast tengsl á níu mánuðum. Það er það sem flestir að ég held upplifa þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að alhæfa því að allar meðgöngur eru örugglega einstakar. Það er eigi að síður svo og það sýna rannsóknir að mjög margt sem gerist á meðgöngu hefur áhrif á bernsku og líf barns upp frá því. Þar skapast tenging og móðir er ekki bara heimili fyrir lífveru í níu mánuði áður en hún afhendir það, heldur er beinlínis í „symbíósu“ og tengslum við það sama barn og þetta snertir gríðarlega mikinn og djúpan kjarna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að barn verði upplýst um tilkomu sína fyrir sex ára aldur. Ég spyr líka: Hvað sjáum við fyrir okkur í þessu? Hvaða vandamál, getum við sagt, sköpum við með þessu fyrir börn sem fæðast með þessum hætti? Við erum alltaf að segja söguna í samfélaginu okkar um tengsl foreldra og barna og öll góð ævintýri snúast um tengsl foreldra og barna. Það er svo merkilegt að sögurnar af vondu stjúpunum voru upprunalega sögur um vondar mæður og síðan kom ritskoðunin til skjalanna einhvern tímann og breytti þessum mæðrum í stjúpur því við tölum ekki illa um mömmur okkar. En um það snúast öll okkar samskipti, þau snúast um samskipti okkar við mæður og feður og allar þær flækjur sem þar geta myndast. Getum við séð fyrir þær flækjur sem myndast þegar barn uppgötvar að það á ekki bara foreldra heldur á það líka aðra móður? Móður sem við vitum í sjálfu sér ekki hvað mun hafa að segja um uppeldi þessa barns.

Þá segja sumir: Já, allt í lagi, það er hægt að fara yfir alls konar svona tilfinningarök, en það líður nú ekki öllum svona í kringum meðgöngu og það geta komið upp þær aðstæður að fólk vilji ganga með barn fyrir einhvern annan og geri um það viljayfirlýsingu, það er ósköp eðlilegt að hægt sé að semja um þessa hluti eins og aðra. Mér finnst mjög erfitt að horfa á það þannig, bara út frá þeim tilfinningarökum sem ég hef fært hér fram og tel að skipti máli í þessu því við erum ekki bara rökrænar verur. En það eru líka önnur grundvallarrök sem skipta máli sem hafa ekkert með tilfinningasemi að gera og ekkert að gera með tengsl móður og barns og söguna sem mér er svo ofarlega í huga. Það eru þau grundvallarrök að við búum í samfélagi þar sem ekki ríkir fullt kynjajafnrétti og þar sem svo sannarlega hefur ekki ríkt jafnrétti nema getum við sagt á síðustu örfáum árum og áratugum. Ég þarf ekki að hafa mörg dæmi um það, við getum bara tekið þróunina í stjórnmálum. Við höfum náð miklum árangri á 30 árum en við skulum ekki ímynda okkur að við séum komin á þann stað að það ríki fullt kynjajafnrétti í íslensku samfélagi og það þó við séum á toppnum í heiminum eftir því sem mér skilst og forsætisráðherrann okkar sé líka á toppnum sem aðalfemínistinn í heiminum, karlkyns. Við skulum ekki ímynda okkur að á Íslandi ríki fullt kynjajafnrétti frekar en annars staðar. Þar nægir bara að nefna misrétti í launum, kynbundið ofbeldi, óteljandi merki í samfélagi okkar sem sýna okkur það og sanna. Það að setja lagaramma sem gerir ráð fyrir því að kona geti gengið með barn fyrir aðra í gegnum viljayfirlýsingu, í raun og veru samningsbundin staðgöngumæðrun þótt hún sé ekki í hagnaðarskyni, sýnir og eykur hættuna að ég tel á að marka ákveðinn bás fyrir konur í samfélagi þar sem ríkir ekki fullt kynjajafnrétti.

Ég hef lesið lærðar greinar frá fólki sem færir fyrir því sannfærandi rök að tilfinningarökin séu eitthvað sem við verðum að ýta til hliðar. Ég er ekki sammála því en ég skil alveg að einhverjir vilji gera það. En á meðan við búum í samfélagi þar sem ekki ríkir jafnrétti kynjanna þá hljótum við að spyrja okkur hvaða skilaboð við séum að senda með því að færa það í lög að eðlilegt sé að samningsbinda konur til þess að gegna þessu hlutverki fyrir aðra, að verða í raun og veru tæki fyrir aðra til að uppfylla óskir sínar og drauma. Hvað erum við að segja við konur? Ég spyr bara kalt og rökfræðilega: Hvað erum við að segja við konur með því að setja þennan lagaramma og þar með, svo ég fái að sletta, herra forseti, að normalísera staðgöngumæðrun með þessum hætti? Ég held að þetta sé grundvallarástæðan fyrir því að annars staðar á Norðurlöndum hefur að minnsta kosti ekki enn þá verið ráðist í það að setja lög um staðgöngumæðrun. Það er ekki síst út af því sjónarmiði sem snýst um kynjajafnrétti að við heyrum annars staðar frá á Norðurlöndum þar sem kynjajafnrétti er sterkt eins og hér, að þetta skref geti verið mjög varhugavert. Ég hef meira að segja hlustað á fólk sem segir að ef hér væri fullkomið kynjajafnrétti væri það til í að skoða þetta, og það ýtir öllum tilfinningarökunum til hliðar, en svo er ekki og þess vegna eigum við ekki að taka þetta skref því að með því getum við verið að færa stöðu jafnréttis aftur.

Þetta finnst mér að þurfi að taka til skoðunar þegar við ræðum þetta frumvarp sem snýst um að setja ramma um tækni sem er komin. Hvað felst í því að taka það skref? Þar með erum við að segja að okkur finnst það bara eðlilegur hluti af samfélaginu að biðja konur að ganga með börn fyrir aðra. Við tökum tæknina og segjum, þetta er bara eðlilegt. Hvað erum við þá að segja við konur? Hvaða vandamál erum við að búa til fram í tímann þegar við horfum á börnin sem hugsanlega vaxa upp með þessum hætti? Ég spyr af því að hér erum við að fást við grundvallarkjarna mannlegrar tilveru.

Herra forseti. Ég vil segja, af því að tíminn minn er á þrotum, að mér hefur fundist þetta erfitt mál þegar það hefur verið hér til umræðu. En ég vil hlusta á þá siðfræðinga sem hafa beðið okkur um að fara hægt í þessu máli og gefa þessu tíma. Það hefur verið til umræða allt frá 2008, 2009 þegar þessi mál komust fyrst á dagskrá en það er enn mín skoðun að sú umræða sé ekki nægjanlega þroskuð og mér finnst mikilvægt að við í þinginu gefum okkur tíma til að fara yfir málið út frá því sem ég hef farið yfir og ýmsu öðru sem aðrir hv. þingmenn hafa nefnt. Þetta er grundvallarspurning fyrir börnin og rétt þeirra til foreldra. Þeim spurningum finnst mér ekki svarað en þetta er líka grundvallarspurning um það hvernig við horfum á konur og karla og ég vara við því að þar verði teknar ákvarðanir sem við getum séð eftir langt fram í tímann.