145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka tækifærið til þess að fá að ausa aðeins úr viskubrunni fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra. Ég er tiltölulega nýbyrjaður í þessu þannig að það hjálpar mér mjög oft að vita söguna fyrir núverandi ástand. Hvernig varð ÞSSÍ til og hvernig var ástandið áður? Hver var ástæðan fyrir því að farið var yfir í núverandi fyrirkomulag? Það hefur væntanlega upplýsandi áhrif á það af hverju er verið að hætta því fyrirkomulagi.

Einnig var nefnt að núna væri stefnt að 0,7% af vergri landsframleiðslu í þróunaraðstoð. Ég var að kíkja yfir listann af verkefnum ÞSSÍ. Þar eru ýmis þróunaraðstoðarverkefni sem eru annars staðar eins og Jarðhitaskólinn sem virðist ekki vera undir ÞSSÍ. Hvernig fer fyrir þeim verkefnum við þessa breytingu?