145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

atvinnuuppbygging í Austur-Húnavatnssýslu.

234. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hörður Ríkharðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framkvæmd ályktunar Alþingis frá 14. janúar 2014, en ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun.“

Ályktun sú sem hér um ræðir er bráðum tveggja ára gömul. Það sem einkennir þá ályktun öðru fremur er að hún er ákaflega skýr, gagnorð og auðskiljanleg hverjum þeim sem hana les. Í henni felst að efla á atvinnulíf, skapa ný störf og nota til þess orku frá Blönduvirkjun. Ríkisstjórninni er falið að standa fyrir því verki. Það verkefni er að sjálfsögðu ekkert áhlaupaverk sem hægt er að komast frá með einföldum hætti. Þess heldur er mikilvægt að því sé fylgt eftir og að að því sé unnið af kappi.

Alþingi og ríkisstjórn verða að gera sér ljóst að með samþykkt ályktunar sem orðuð er með þessum hætti eru skapaðar miklar væntingar meðal íbúa þess svæðis sem ályktun af þessu tagi nær til. Íbúar svæðis sem tiltekið er með jafn afgerandi hætti og hér hefur verið gert, gera að sjálfsögðu þá kröfu að árangur verði af þessu starfi og að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin eru með samþykkt ályktunar af þessu tagi.

Í greinargerð með ályktuninni og í starfi sem unnið hefur verið síðan hafa verið dregnar saman upplýsingar um þróun atvinnulífs, íbúafjölda, íbúasamsetningar, aldurssamsetningar, stöðu menntunar og ýmsar aðrar upplýsingar um þróun félags- og menningarbundinna þátta á svæðinu. Skemmst er frá því að segja að þær upplýsingar draga einstaklega dökka mynd af þeirri þróun sem á sér stað á þessu svæði. Vel má vera að einstaklingar, fyrirtæki og sveitarstjórnir á svæðinu þurfi og geti lagt mun harðar að sér við að snúa við þeirri þróun sem við blasir og reyndar er auðvelt að fullyrða að þær geti það. Hér og nú er hins vegar vettvangur til að fá svör við því hjá hæstv. ráðherra: Hvað líður eflingu atvinnulífs? Hvað líður sköpun nýrra starfa og hvað líður nýtingu raforku Blönduvirkjunar á svæðinu?