145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi formleg afskipti ráðherra gagnvart öðru ríki þá er auðvitað ljóst að formleg samskipti milli ríkisstjórna fara eftir ákveðnum leiðum. Svo er hitt að sjálfstæði sveitarfélaga er mikið í flestum löndum í hinum vestræna heimi og samskipti landa þeirra þess vegna enn flóknari hvað þetta varðar.

Rétt er að hafa í huga að stjórn Kynningarmiðstöðvarinnar hefur haldið á þessu máli. Ég tel að þar á bæ hafi menn gert þetta eins vel og hægt var miðað við þá þröngu stöðu sem uppi var.

Ég vil vekja athygli á einu, vegna orða málshefjanda, sem snýr að framtíðinni. Það vakti athygli í þessu samhengi að þegar farið var fram á yfirlýsingu frá höfuðstöðvum Feneyjatvíæringsins, sem staðfesti að framlag Íslands til sýningarinnar væri listaverk, en um það snerist málið, hvort það væri listaverk eða tilbeiðsla, þá varð skrifstofa Feneyjatvíæringsins ekki við þeirri beiðni, þrátt fyrir að hafa kynnt verkið áður með þeim hætti að um væri að ræða listaverk, m.a. í útgefinni dagskrá. Auðvitað hefur maður því orðið fyrir miklum vonbrigðum með borgaryfirvöld en líka með sýningarhaldarana.

Ég tel mjög mikilvægt, og held að það sé rétt athugað hjá hv. þingmanni, að menn falli ekki í sjálfsritskoðun hvað þetta varðar. Það finnst mér líka skipta máli þegar við ræðum þessi mál hér heima á Íslandi. Ég verð að játa að mér fannst ýmislegt sem ég sá í umræðunni ekki vera mér að skapi hvað þetta mál varðaði. Mér fannst horft fram hjá því mikilvæga hlutverki listamannsins að fjalla einmitt um svona mál með þessum hætti, sem var bæði frumlegt og snjallt og til þess fallið að vekja umræðu.

Við þurfum að gæta okkar á því að falla ekki í þá gryfju að ritskoða okkur sjálf út frá þessu og ég mun beina því til stjórnar Kynningarmiðstöðvarinnar. Ég held reyndar að þess þurfi ekki af því að ég held að þar á bæ séu menn algjörlega klárir á því að menn falli ekki í slíka gryfju. Ég held að menn hafi á því góðan skilning og muni ekki láta slíkt henda sig.