145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því nefni ég lífeyrissjóðina að ég held að flestir séu sammála því að þeir eru meðal helstu grunnstoða í innviðum hins íslenska samfélags. Þeir eru stundum teknir sem dæmi um hvað okkur hafi tekist vel að byggja Ísland og eru öfundarefni annarra þjóða. Við höfum tekið mark á Indefence. Við höfum hlustað á þeirra hörðu gagnrýni oft og tíðum og reynslan og sagan hefur sýnt að þeir hafa haft rétt fyrir sér í mörgum efnum, þótt ekki hafi það alltaf verið. Nú hafa þeir komið fram með gagnrýni sína á þetta mál eins og það er komið fram núna. Þeir bera ákveðinn kvíðboga fyrir framtíðinni gagnvart lífeyrissjóðakerfinu.

Fram hefur komið hjá nokkrum hv. þingmönnum að fulltrúar Indefence hafa gengið á fund þingflokka og skýrt sjónarmið sín. Við höfum líka getað lesið um það í fjölmiðlum hvaða viðhorf þeir hafa. Eitt af því sem þeir sögðu við þingflokk Samfylkingarinnar var að þeir óttuðust að að óbreyttu mundi framvinda þessa máls eins og hún er lögð fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar leiða til þess að lífeyrissjóðakerfið mundi gjörbreytast að eðli til, það mundi breytast úr því núverandi formi sem hefur vakið svo mikla virðingu, bæði okkar sem búum landið og annarra, yfir í það að vera gegnumstreymiskerfi sem væri einmitt það sem við vildum forðast og það sem aðrar þjóðir búa við, en horfa til okkar sem dæmi um það hvernig eigi að ná upp góðu lífeyrissjóðakerfi. Þess vegna finnst mér það dálítið grátlegt þegar verið er að ryðja málinu hér í gegn af hálfu ríkisstjórnarinnar án þess að menn sem sitja á Alþingi, almenningur og samtök eins og Indefence, fái að beita sínum röntgenaugum á það.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hún ekki að hægt hefði verið að ná samkomulagi um málið ef menn hefðu fengið ráðrúm til þess að vinna það saman?