145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

markmið Íslendinga í loftslagsmálum.

[13:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Það er virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til að skýra málin. Ég segi það hér að ég veit ekki betur en að tilkynnt hafi verið á fundi með þingflokksformönnum að ég hygðist vera með kynningu í næstu viku á þeim fyrirætlunum sem við höfum varðandi hinn mikla fund í París.

Þjóðir heims eru náttúrlega að búa sig undir að uppfylla þar ákveðin skilyrði en ég lít þannig á að þjóðir heimsins komi þar jafnframt saman til að læra hver af annarri og taka höndum saman, því að lofthjúpurinn er okkar allra, sameiginlegur, og það sem hvert og eitt okkar gerir hjálpar öllum heiminum. Við erum bæði að gera tillögur og vinna að undirbúningi að því sem við á Íslandi getum gert í sérstökum aðgerðum sem og á alþjóðlega vísu.

Ég get fullvissað hv. þingmanninn og þingmenn almennt um að unnið er hörðum höndum undir stjórn Huga Ólafssonar í umhverfisráðuneytinu, sem stýrir samvinnuhópi sex ráðuneyta til að skoða hugmyndir um hvað við getum gert sértækt til að uppfylla skilyrðin. Við erum metnaðarfull í því og ég er hér með drög að plaggi sem ég hef áhuga á að kynna til að fá umræðu um það og það skiptist í þrjár hugmyndir. Það er fyrst og fremst hvaða verkefni við ætlum að leggja áherslu á. Það eru síðan áherslur á alþjóðleg verkefni og hvað við vinnum þar með alþjóðaheiminum eða hnattrænt og svo er það styrking innviða innan lands, hvernig við styrkjum innviði okkar til að vera betur í stakk búin til að takast á við verkefni okkar.