145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

makrílveiðar smábáta.

[14:05]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilefni fyrirspurnar minnar er sú breyting sem varð á fyrirkomulagi makrílveiða smábáta á síðasta fiskveiðiári. Þá var gerð sú breyting að í stað þess að hafa einn pott sem mátti veiða úr var aflanum skipt á báta og miðað við sex ára veiðireynslu. Þessi breyting hafði í för með sér að margir smábátasjómenn, sem höfðu útbúið báta sína með ærnum kostnaði, fengu litla sem enga úthlutun og stóðu veiðar ekki undir þeim tilkostnaði sem lagt hafði verið í. Niðurstaðan varð sú að margir sem ráðgert höfðu að halda til makrílveiða fóru ekki af stað og aðrir sem hugsanlega hefðu viljað reyna fyrir sér áttu þess ekki kost. Það voru því einungis veidd 3.176 tonn af 7.026 tonnum sem voru til úthlutunar.

Makrílveiðar smábáta undanfarin ár hafa haft mikil jákvæð áhrif á mörg byggðarlög við sjávarsíðuna og skapað störf og tekjur bæði fyrir sjómenn og fólk í landi, fyrir utan það að hráefnið sem berst frá þessum bátum er eins gott og hráefni getur orðið. Það verður að sjálfsögðu að taka fram að makrílgöngur á grunnslóð voru með öðrum hætti í sumar en undanfarin ár og hafði það vissulega einhver áhrif á að minna veiddist auk þess sem verðið var lægra en undanfarin ár.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist ekki endurskoða þetta fyrirkomulag í ljósi þessarar reynslu.