145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:58]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir innganginn að þessari umræðu. Ég vil nefna í upphafi að sé vilji til þess að ríkið tryggi tilvist tiltekins landbúnaðar hér á landi óháð eftirspurn eða hagkvæmni, og ég hef mínar skoðanir á þeirri spurningu sem ekki gefst tækifæri til að ræða hér og nú, er rétt að gera það með beinum og gagnsæjum hætti, eins og t.d. með samningu stjórnvalda um millifærslu á fé með skattgreiðendum til bænda. Búvörusamningur eða samningar eru sem slíkir ágætir í þeim tilgangi.

Það er hins vegar alveg ótækt að mínu viti að stuðningur við landbúnað, eða hvaða atvinnugrein sem er, sé einnig með óbeinum hætti eins og með aðgangshindrunum, þ.e. hindrunum inn á markaðinn fyrir erlendar samkeppnisvörur. Það skiptir þá engu máli að mínu áliti þótt önnur lönd svíni á sínum þegnum með þeim hætti. Og þótt ég telji farsælast og eðlilegast að Ísland sem fullvalda og sjálfstætt ríki taki einhliða ákvörðun um afnám tolla og annarra aðgangshindrana á íslenskum markaði og renni þannig stoðum undir þau mannréttindi sem felast í frjálsum viðskiptum, þá fagna ég nýgerðum samningi við Evrópusambandið um afnám tolla á landbúnaðarafurðum og aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum. Hins vegar hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að samningurinn verði ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en nýr búvörusamningur hefur verið undirritaður og það má nokkuð taka undir þau sjónarmið sem þar liggja að baki, svo lengi sem ekki dregst úr hófi fram að ljúka gerð nýs búvörusamnings. Vinna við gerð nýs búvörusamnings eða samninga má ekki hindra þau skref sem ákveðið hefur verið að taka í átt að frjálsræði, í átt að meira frelsi í viðskiptum og þá má samningurinn við Evrópusambandið ekki heldur vera syndaaflausn stjórnvalda í þeim skilningi að frekar verði ekki aðhafast í þágu viðskiptafrelsis.