145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni, það er sannarlega rannsóknarefni. Það er kannski erfitt að draga ályktanir af því sem gerist eftir kreppu í útlöndum ef ríkin hafa ekki öll breytt virðisaukaskattskerfinu í millitíðinni. Það má vera að hérna sé um séríslenskar aðstæður að ræða.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hugsanlega geti verið á ferðinni vandamál sem er tengt samsetningu á vinnumarkaðnum. Við eigum í vandræðum með framleiðni sem er ekki nægilega mikil hér á landi til að standa undir þeim kauphækkunum sem búið er að semja um, eins og hagfræðingar hafa talað um og bent á. Nýju störfin sem eru að verða til hér á landi eru langflest í ferðaþjónustu og virðisauki af störfum og fjármagni í þeirri grein er ekki mikill. Framleiðnin af nýju störfunum bætir ekkert úr þeim framleiðnivanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Ég spyr hv. þingmann hvort einhverju geti hugsanlega verið ábótavant í atvinnustefnu hæstv. ríkisstjórnar. Er ekki kominn tími til að skoða atvinnustefnuna sérstaklega og ræða hana hér á þingi þegar svona miklar breytingar verða í þessu umhverfi og ein atvinnugrein stækkar með svo miklum hraða eins og raunin er með ferðaþjónustuna? Vissulega skiptir miklu máli fyrir efnahaginn, atvinnuleysistölurnar og gjaldeyrisstöðuna að ferðaþjónustan stækki, (Forseti hringir.) en þurfum við ekki að reyna að horfa fram í tímann og sjá til þess að hún vaxi okkur ekki yfir höfuð?