145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson veldur mér verulegum vonbrigðum. Ég velti fyrir mér hvað er orðið um bardagamanninn sem forðum tíð glímdi hart fyrir hverju máli sem hann flutti.

Ég er sjálfur sviptur þeirri gleði sem gæti falist í því að geta loksins með góðri samvisku stutt eitt af þeim málum sem hv. þingmaður flytur. Málið er mjög gott. Ég hefði hugsað mér að styðja það með gleði, en ég skil ekki alveg stöðu málsins.

Hv. þingmaður flutti hér ákaflega hulduhrútslega ræðu þar sem hann lýsti því að tillagan væri góð, eins og ég er sammála honum um, allir væru ákaflega ánægðir með hana, en hann ætlaði eigi að síður að draga hana til baka. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þingið eigi að hafa mikil völd og ef einn hv. þingmanna leggur fram tillögu sem er mjög jákvæð og ríkir góð sátt um, hvers vegna þá ekki að nota þessa ferð til að ljúka því? Það hefur komið fram að hv. þingmaður hefur rætt bæði við hæstv. ráðherra og formann nefndarinnar, enginn mælir í gegn þessari tillögu, þannig að ég er þeirrar skoðunar að hv. þingmaður hefði átt að láta slag standa og flytja þetta mál. Mér finnst að ekki eigi endilega að setja það í hendur framkvæmdarvaldsins þegar fyrir liggur alveg skýr stuðningur við málið. Málið er einfalt í sjálfu sér. Það er mjög í anda mengunarbótareglunnar sem hv. þingmaður hefur ekki alltaf verið jafn glaður yfir og ég þótt vissulega hafi hann þokast nær betri skilningi á umhverfismálum á síðustu árum en áður var. Það hefur glatt mig og marga aðra. Þess vegna olli það mér ákveðnum geðhrifum þegar hv. þingmaður lagði fram þessa tillögu því að ég sá að loksins var hann að komast í þann áfangastað sem ég vil hafa hann gagnvart umhverfismálum. Ég vil bara lýsa hryggð minni yfir því að hv. þingmaður skuli með þessum hætti hopa af hólmi.