145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get upplýst enn einu sinni að það er minnsta málið að ráðstafa meiri fjármunum inn í heilbrigðisþjónustuna en við höfum til ráðstöfunar. Svör við hugrenningum hv. þingmanns um kostnaðargreininguna á þessu eru einfaldlega þau að þetta er unnið af fjárlagaskrifstofunni í ráðuneytinu og er unnið eftir bestu þekkingu þar. Það má í sjálfu sér segja sem svo að þetta séu vissulega ekki stórar fjárhæðir, 560 milljónir á fjórum árum, í stóra samhenginu. En það sýnir okkur kannski líka ágætlega hversu miklu er hægt að áorka með tiltölulega litlum fjárveitingum í þessum málaflokki. Mitt mat er að þetta sé vel unnið plagg og kostnaðargreiningin það besta sem við höfum völ á í þessari greiningu. Þarna eru þættir inni sem hugsanlega kunna að rúmast innan ramma viðkomandi stofnana eða þá að þarna er verið að setja á fót starfshópa og almenna reglan hjá ríkinu er sú að það er ekki greitt fyrir setu eða störf í starfshópum.

Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að þetta hefur verið heldur stefnulaus málaflokkur. Við erum að taka okkur á í því. Við erum núna að leggja fram þessa stefnu í geðheilbrigðismálum, sem er sú fyrsta sem við komum fram með. Við erum að vinna að gerð stefnu í öldrunarmálum og ég vonast eftir því að geta kynnt hana í upphafi næsta árs. Við erum sömuleiðis að vinna að stefnu í krabbameinsmálum. Svo erum við að leggja drög að heilbrigðisáætlun til lengri tíma sem umfaðmar eða umvefur í rauninni allt kerfið. Hún kemur þá í lokin.