145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu og vil þakka öllum þeim sem hafa átt hlut að máli. Það er alltaf gaman að sjá að þingsályktunartillögur sem þingmenn bera fram beri ávöxt eins og hér er. Mér finnst líka gott í þessu plaggi að fá yfirlit yfir þá þjónustu sem er til staðar úti um land og það sést hvað hún er í raun fjölbreytileg og mismunandi eftir landshlutum.

Í þingsályktunartillögunni er reyndar tekið fram að kannski sé ekki allt nefnt, en mig langar aðeins til að vekja athygli á einu úrræði á Akureyri sem er Hlíðaskóli; kannski deila ráðuneytin um það hvort það sé skóli eða meðferðarúrræði, en eins og ég þekki Hlíðaskóla þá er hann í raun mjög mikilvægt meðferðarúrræði sem hefur lent á milli skips og bryggju að einhverju leyti. Það sýnir kannski hve fjölbreytt meðferðarúrræðin geta verið og farið fram á mismunandi stöðum.

Mig langar líka að benda á að á bls. 17 er liður A.7 þar sem talað er um að settur verði á fót starfshópur sem kanni hvort fjarþjónusta um internet gæti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Þá vil ég minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að þingsályktunartillaga Bjartrar framtíðar var samþykkt í vor um fjarheilbrigðisþjónustu. Það hlýtur einhvern veginn að vinnast saman. (Gripið fram í.) Já, það er að fara í gang og þetta er hér, þannig að þetta vinnst allt saman, að ekki sé verið að margvinna hlutina — en ég veit að hæstv. ráðherra er með þetta allt á hreinu.

Þetta virkar vel unnið. Ég segi kannski eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem átti þingsályktunartillöguna, að ég hefði kannski viljað sjá meiri áherslu á börn og unglinga, en ég geri samt ráð fyrir að það sé fléttað inn í eftir ýmsum leiðum. Ég ætla því ekki að vera með neikvæðni hér. Ef þessi áætlun nær fram að ganga næstu fjögur árin þá erum við strax búin að stíga risastórt skref. Það eina sem ég hef áhyggjur af er að fjárveitingarnar séu of tæpar. Það snýr þá, eins og hæstv. ráðherra bendir á, kannski að okkur hér í þinginu, að reyna að eiga við það. En ég hefði kannski viljað sjá aðeins meiri metnað hvað það varðar þó að ég ætli ekki að fara að deila við starfsmenn í fjármálaráðuneytinu sem eflaust vinna þetta eftir bestu getu.

Ég kom aðeins inn á fangana í andsvari mínu sem mér þykir mikilvægt að gleymist ekki, og hæstv. ráðherra sagði að starfshópur væri að störfum um málefni fanga.

Ég held að ég sé ekkert að lengja þetta. Ég er spennt að sjá umsagnir sem berast og hvort þessi tillaga taki breytingum í meðförum nefndarinnar. Ég mundi vilja sjá að við reyndum að flýta þeim verkefnum sem ekki er gert ráð fyrir strax á næsta ári ef við gætum. Mér finnst verið að setja hér á fót mjög mörg brýn og þörf verkefni sem við hefðum átt að vera byrjuð á fyrir 20 árum, sum þeirra munu ekki að byrja fyrr en 2017 eða 2018, jafnvel 2019. Að við ýtum þessu úr vör eins fljótt og við getum, ég mundi vilja sjá fjárveitingar í það að byrja fyrr og vera komin lengra á veg 2019.

Ég þakka fyrir þetta góða mál og fylgist með því þó að ég sitji ekki í velferðarnefnd.