145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:13]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar. Í þessu andsvari staldra ég við það sem hún sagði í ræðu sinni um að það væru 6 milljarðar útistandandi í innheimtu eftir að dómar hafa fallið til fésektar. Því vil ég fagna þeim innheimtuúrræðum sem hún kemur með í XI. kafla. Ég held að það sé til bóta að við gefum ekki þau skilaboð að slíkar fésektir fyrnist eða eitthvað í áttina.

Mig langar að spyrja. Hæstv. ráðherra bar saman Ísland og annað ríki á Norðurlöndum, Noreg, sem hefur náð góðum árangri í að innheimta þessar sektir, og ég velti fyrir mér: Erum við að fara sömu leið og Norðmenn eða erum við að gera eitthvað annað?

Ég velti líka fyrir mér hvort það hafi eitthvað verið rætt í meðferð þessa frumvarps að innheimta fésektir af launum. Ég veit að það er mjög grimmt að spyrja svona en ég vænti þess þó að ef gripið yrði til slíkra aðgerða, sem eru þekktar annars staðar, væru þær vægar en samt notaðar til þess að ráðast í það að létta á svona skuldum, sem standa á Íslandi í 6 milljörðum.