145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

viðbrögð við hryðjuverkaárásunum í París.

[15:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja að okkur hafi öllum orðið mjög brugðið við þá atburði sem við urðum vitni að síðasta föstudag og eflaust eru þeir í hugum okkar allra á Vesturlöndum og úti um allan heim, við hugsum til Frakka á þessari stundu.

Ég held að mjög mikilvægt sé að gæta að því þegar svona gerist að hverju árásirnar beinast. Þær beinast að sjálfsögðu að grunngildum okkar, þær beinast að því sem við byggjum samfélag okkar á, því að við séum frjáls í þeim athöfnum okkar í landi okkar til að iðka þær trúarskoðanir og það sem við helst kjósum.

Að sjálfsögðu er fyrsta svarið við slíku ofbeldi, þegar reynt er að fara inn í raðir okkar með því að ráðast svona á, að ala á ótta. Það má ekki takast. Það verður að vera verkefni okkar að reisa fána frelsisins hærra á loft við slíka atburði og tala mjög ákveðið fyrir því alls staðar þar sem við komum, bæði hér innan lands og ekki síst á alþjóðavettvangi.

Við munum að sjálfsögðu fara yfir það, eins og gert er hér, hvaða afleiðingar svona árásir hafa, hvort hætta sé á frekari árásum og slíka hluti. Allt þetta mun koma í ljós eftir því sem tímanum vindur fram.

Við höfum sagt það á Íslandi að ekkert bendi til þess að við þurfum að óttast um kjör okkar hér við þessar aðstæður. Við munum auðvitað fylgjast með því sem samstarfslönd okkar gera. Ég held að mjög mikilvægt sé þegar svona gerist að við fylgjumst mjög náið með því og stillum okkur saman við þau og bregðumst við með sameiginlegum hætti. Það er eina leiðin til að nálgast ógn af þessu tagi, að þeir sem deila sjónarmiðum okkar sameinist gegn þeirri ógn sem að steðjar.

Ég held að það sé ekki ástæða til að (Forseti hringir.) draga frekari ályktanir á þessu stigi málsins, en að sjálfsögðu verðum við að gæta að því hvaða skref við tökum síðan í framhaldinu.