145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

öryggisreglur fyrir hópferðabíla og strætisvagna.

192. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við gerum náttúrlega þær breytingar við lögin sem við teljum til bóta út frá öryggissjónarmiðum og öðrum þeim sjónarmiðum sem okkur finnst skipta máli. Tiltekin ákvæði, breytingar á þessari löggjöf, lúta að veru okkar í EES-samningnum, en þar er um annars konar atriði að ræða en við erum hér að gera að umtalsefni.

Ég held að það komi vel til álita, þegar við stígum næsta skref, að meta hvernig við eigum að fara með standandi farþega, og það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að hvort sem farþeginn er 17 og hálfs eða 18 ára skiptir kannski ekki öllu máli. Það blasir við að ákveðin hætta er á ferðum þegar menn standa í bifreið á þjóðvegum á vetrum í hálku svo dæmi sé tekið. Það skiptir máli að við skoðum það og ég tek þeim ábendingum sem hv. þingmaður kemur með til mín í þessu efni. Ég tek þær til mín við áframhaldandi vinnslu málsins.

Varðandi síðan þetta tiltekna frumvarp mun það væntanlega koma fram í töluvert breyttri mynd síðar í vetur og við sjáum þá hvernig þessi ákvæði munu birtast í því frumvarpi.