145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Þessa viku er þingflokkur Pírata skipaður konum eingöngu. Okkur skilst að þetta sé í fyrsta sinn í 20 ár sem þessi skemmtilega staða kemur upp í þingflokki á Alþingi. Við þingkonur Pírata höfum af þessu tilefni haft hugann töluvert við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Þessi tímamót eru ekki eingöngu sérstakt afmæli kvenna heldur miklu fremur afmæli mikils lýðræðisáfanga í sögu þjóðarinnar. Mér þykir aðeins miður að lýðræðið sjálft hafi ekki fengið meiri athygli á þessu merkilega lýðræðisafmæli. Við getum vissulega fagnað því hve rödd almennings á orðið greiða leið í hinum almennu umræðum um stjórnmál. Hinn almenni borgari hefur mun meiri aðgang að upplýsingum en áður og raddir fólks eiga greiðari leið en áður í gegnum samfélagsmiðla. En á sama tíma er kosningaþátttaka að minnka og sér í lagi á meðal ungs fólks. Hvernig eigum við að bregðast við því? Þurfum við að efla menntun og þekkingu á lýðræði? Þurfum við að efla lýðræðisvitund unga fólksins?

Það er ekki aðeins kosningaþátttaka sem hefur fallið. Traust til Alþingis hefur hríðfallið. Margir tala um fjórflokkinn með óbragð í munni. Stjórnmálafólk þarf að vera óhrætt við að velta upp mögulegum ástæðum fyrir hnignandi kosningaþátttöku. Eru það ef til vill flokkarnir sjálfir sem standa lýðræðinu fyrir þrifum? Þurfum við kannski að skoða lýðræðisfyrirkomulag okkar frá grunni nú í kjölfar upplýsinga- og tæknibyltingarinnar? Eða geta stjórnmálin og stjórnmálaflokkarnir einhvern veginn endurheimt traustið og sjálfsvirðinguna?

Mér verður hugsað til orða Krishnamurti: Að vera vel aðlagaður að sjúku samfélagi er enginn mælikvarði á heilbrigði.

Þegar kerfið er orðið sjúkt og þjónar okkur ekki lengur ber okkur að endurskoða það og endurbyggja. Stjórnmálaflokkar og starf í þeim er leið að ákveðnu marki en ekki markið sjálft. Annaðhvort þurfum við að endurheimta traust á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum eða þeim verður hent á haugana fyrir aðra og betri lýðræðisumgjörð. Grasrót samfélagsins mun sjá til þess.


Efnisorð er vísa í ræðuna