145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:15]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað fagnaðarefni að við skulum taka til umræðu þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu. Það er okkur mikilvægt. Við höfum fengið áminningu síðustu vikur og mánuði og missiri um að mikilvægt sé að marka þá stefnu. Ég hef hins vegar ákveðnar áhyggjur af því að við kunnum að einhverju leyti að vera að búa til falskt öryggi.

Það sem veldur mér fyrst og fremst áhyggjum er tvennt. Annars vegar er ljóst að það áhættumat sem lagt er til grundvallar er sex ára gamalt, frá árinu 2009, og þó að menn hafi reynt að uppfæra einhverjar upplýsingar er í grunninn byggt á úreltu mati. Heimurinn hefur gjörbreyst. Við höfum séð innlimun Krímskaga, borgarastyrjöld í Sýrlandi, loftárásir á Líbíu sem voru með velvilja þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem menn vilja stundum gleyma. Hryðjuverk hafa orðið nær okkur í Evrópu en við kjósum. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki áhyggjuefni í huga hæstv. ráðherra að við skulum byggja á svo úreltu mati.

Hins vegar er ljóst að þjóðaröryggi byggir að stærstum hluta á borgaralegum stofnunum og samstarf okkar við önnur lönd er á borgaralegum forsendum, m.a. á vettvangi NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. (Forseti hringir.) Með réttu ætti því stjórnsýsla þjóðaröryggis fremur að heyra undir (Forseti hringir.) innanríkisráðuneytið en utanríkisráðuneytið.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Er ekki rétt (Forseti hringir.) að skilgreina stjórnsýslu þjóðaröryggismála með nýjum hætti og færa hana frá utanríkisráðuneytinu til innanríkisráðuneytisins?

(Forseti (KLM): Ég vil biðja hv. þingmenn að gæta að tímamörkum sem eru í andsvörum jafnt sem annars staðar.)