145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt sem hv. þingmaður segir þá er málið verra og alvarlegra en ég hélt. Ég stóð í þeirri trú að það væru fyrst og fremst þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þegar litið er til stjórnarmeirihlutans, sem væru þessu frumvarpi andvígir. Nú staðhæfir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að hann hafi trú á því að margir þingmenn Framsóknarflokksins, hann nefndi engan tiltekinn fjölda, séu í reynd í hjarta sínu líka andvígir þessu frumvarpi. Það finnst mér vera mjög alvarlegur hlutur.

Eitt vil ég nefna, og notfæri mér það að ég er í andsvörum við hv. þingmann og vil beina spurningu til hans þótt hann sé í andsvari við mig, og það snýr að starfinu í utanríkismálanefnd. Það hefur verið staðhæft í þingsalnum að málið hafi verið tekið út úr nefndinni án þess að gefist hafi tóm til þess að fara yfir allar umsagnir sem hafi borist og fá til fundar við nefndina þá aðila sem einstakir nefndarmenn í utanríkismálanefnd vildu fá á hennar fund. Ég vil fá þetta staðfest í ræðustól Alþingis vegna þess að mér finnst þetta vera alvarlegur hlutur.

Sú venja hefur tíðkast í þinginu, ég tala nú ekki um í umdeildum málum, að stjórnarandstöðu eða gagnrýnendum á umdeild mál er gefið færi á því að færa öll rök inn í umræðu nefndarinnar áður en mál er tekið þaðan út og sent til þingsins.