145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

2. umræða fjárlaga.

[10:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessi svör og vona svo sannarlega að starfsáætlun nái fram að ganga og hún haldi. Það er líka sorglegt til þess að vita að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar sagði það við okkur á fundi í gær að við fengjum að vita um leið og meiri hlutinn hver framvindan í málunum væru. Ég hélt ekki að það fælist í því að það kæmi fram í fjölmiðlum. Ég hélt að það fælist í því að við fengjum þá að minnsta kosti prívat tölvupóst eða fund fjárlaganefndar. Það er mjög bagalegt, virðulegi forseti, að þetta sé verklagið.

Ég verð líka að taka undir þessar áhyggjur en um leið lýsir maður furðu sinni á því að formaður fjárlaganefndar nái ekki utan um starfið með þó þeim fyrirvara sem nú er á þinghaldinu þegar það byrjar í september. Hún lýsti því yfir í pontu þingsins um daginn að hún teldi enga ástæðu til þess að byrja þinghaldið svona snemma, það væri ástæða til þess að byrja það í október. Ég velti því fyrir mér hvar við værum stödd ef svo hefði verið.

Virðulegi forseti. Ég hvet (Forseti hringir.) hæstv. forseta til þess að fá fram svör frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig staðan nákvæmlega er þannig að við getum fengið svör við spurningum okkar.