145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum, það er áhugavert sem hér var vitnað í allra síðast. Það sem við höfum orðið áþreifanlega vör við er að framkvæmdarvaldið hefur því miður yfirleitt ekki verið hér til viðræðu þegar við höfum óskað eftir því og ekki fylgt þeim örfáu málum úr hlaði sem þó eru lögð fram.

Mig langaði hins vegar í ljósi umræðunnar áðan að vekja athygli á öðru, og hvet þingheim til að hugsa um það þegar við förum í 2. umr. fjárlaga, að ráðherra taldi áhættusamt að vera í bankarekstri fyrir hönd ríkissjóðs. Hann ætlar samt að fjárfesta fyrir 2,5 milljarða í Asíubanka, hann er með heimild til þess í fjáraukalögum þannig að við þurfum að ræða það núna við fjáraukalögin og við fjárlögin, það skrýtna viðhorf sem hér birtist, og ekki bara milli flokka. Það virðist vera áhættusamt að eiga íslenska banka en ekki erlenda. Þessi fjárlög eru hluti af forsendum þessarar ríkisstjórnar og það er óeðlilegt að þarna um sé svona mikill ágreiningur.